Helgarsprokið 19. júlí 1998

200. tbl. 2. árg.

Að sögn vestrænna fréttamiðla gerði Bill Clinton góða ferð til Kína á dögunum. Af sömu heimildum mætti ráða að þar í landi væri allt á réttri leið jafnt efnahags- sem félagslega. Það virðist stundum gleymast að kínverska kommúnistastjórnin í Beijing er ógnarstjórn eins og aðrar þær stjórnir sem hafa kennt sig við jafnrétti og réttlæti, – sérstaklega ef þær nefna ríki sín „alþýðulýðveldi“, – hvað sem það nú þýðir.

Eitt af því sem menn virðast stundum vilja gleyma er að þeir sem stjórna nú á meginlandi Kína eru hinir sömu og létu drepa þúsundir friðsælla mótmælenda á Torgi hins himneska friðar fyrir níu árum. Mótmælendurnir voru engir byltingarsinnar, þeir höfðu það eitt til saka unnið að fara fram á umbætur. Þeir vildu að tekið yrði á spillingu ráðamanna og að stjórnsýslan yrði opnari. Auk þess fóru þeir fram á meira einstaklingsfrelsi og aukin stjórnmálaleg réttindi. Fyrir þessar „sakir“ sendu núverandi stjórnvöld skriðdreka inn á torgið með framangreindum afleiðingum.

Stjórnvöld sem standa fyrir slíkum hrottaskap gegn almenningi eiga skilið fulla tortryggni umheimsins, og lágmark væri að þau sýndu raunveruleg iðrunarmerki ef úr tortryggni ætti að draga. Iðrunarmerkin hafa þó sést í afar takmörkuðum mæli og raunar varði Jiang Zemin, forseti Alþýðulýðveldisins Kína, þessa aðgerð stjórnvalda meðan á heimsókn Clintons stóð. Taldi Jiang að þessi dráp á saklausum borgurum hefðu verið nauðsynleg til að hægt hefði verið að ná fram þeim efnahagsumbótum sem orðið hafa. Fólkið lét lífið fyrir „stöðugleikann“, en bæði Jiang og Clinton lögðu mikla áherslu á að hann héldist. Slík réttlæting á fjöldamorðum hefur hingað til ekki verið álitin boðleg.

Eins og til að undirstrika að enn er ógnarstjórn við völd á meginlandi Kína hafa yfirvöld ennþá um 150 menn í haldi sem handteknir voru vegna mótmælanna á Torgi hins himneska friðar og enn stunda yfirvöld pólitískar handtökur. Sem dæmi má nefna að nýlega handtóku þau mann að nafni Yu Tielong, lækni í Jiande, fyrir að hafa hringt í Wang nokkurn Youcai. Sá síðarnefndi hefur það helst til saka unnið að hafa stofnað stjórnarandstöðuflokk. Yfirvöld staðhæfa að Yu Tielong hafi átt það erindi eitt með samtalinu að ganga í stjórnarandstöðuflokkinn.

Eitt höfðu þó margir gert sér vonir um með heimsókn Clintons, en það er að hún yrði a.m.k. ekki til að veikja stöðu kínverska lýðræðisríkisins Taiwan gagnvart ólýðræðislegum stjórnvöldum í Beijing. Þrátt fyrir þetta gekk Clinton lengra er forsetar Bandaríkjanna hafa hingað til gert í að taka undir kröfu Alþýðulýðveldisins Kína um sameinað Kína undir stjórn Beijing. Taiwanar og aðrir lýðræðissinnaðir bandamenn Bandaríkjanna í álfunni standa því að vissu leyti verr að vígi eftir heimsókn Clintons en fyrir hana. Af þessum ástæðum ættu fjölmiðlar á Vesturlöndum að fara varlega í að hampa heimsókninni og sérstaklega stjórnvöldum í Beijing. Því þótt fagna beri efnahagsumbótum og binda megi vonir við að þær leiði á endanum til þess að stjórnvöld muni lúta í lægra haldi í átökum við lýðræðissinna og stuðningsmenn mannréttinda á meginlandi Kína er engin ástæða til þess að láta Beijingstjórn halda að því yrði tekið af léttúð ef hún færi að beita almenning í eigin landi eða öðrum auknu ofbeldi.