Fimmtudagur 23. júlí 1998

204. tbl. 2. árg.

R-listinn fékk nú í vikunni Jón Sveinsson, hæstaréttarlögmann, til að taka saman fyrir sig greinargerð, þar sem reynt er að færa rök fyrir því að R-listinn hafi á sama tíma verið borinn fram af „Samtökum um Reykjavíkurlista“ annars vegar og hins vegar af fjórum stjórnmálaflokkum, Alþýðuflokki, Alþýðubandalagi, Framsóknarflokki og Kvennalista. Jón er vel til þess fallinn að verja erfiðan málstað á borð við þennan, enda fyrrverandi aðstoðarmaður Steingríms Hermannssonar í forsætisráðuneytinu og þrautþjálfaður í nefndasetum fyrir Framsóknarflokkinn.

Tilefni greinargerðar Jóns eru þær athugasemdir, sem fram hafa komið af hálfu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og ýmissa lögfræðinga, um að með hliðsjón af sveitarstjórnarlögum geti R-listinn ekki ákveðið upp á sitt eindæmi að 13. maður listans, Pétur Jónsson, taki sæti Hrannars B. Arnarssonar í borgarstjórn, en ekki Anna Geirsdóttir, sem sat í 9. sæti, meðan Hrannar þessi er í leyfi vegna opinberrar rannsóknar á skattamálum hans. Gangrýnin byggir á því, að sveitarstjórnarlög kveða á um að kalla skuli inn varamenn eftir þeirri röð sem fram kemur á framboðslistanum, sem borinn var fram í kosningunum, og að aðeins í þeim tilvikum sem listi sé borinn fram af tveimur eða fleiri stjórnmálaöflum geti þessir aðilar samið um að kalla inn varamenn eftir einhverri annarri röð en þar kom fram.

Jón reynir í greinargerð sinni að sýna fram á, að þrátt fyrir að fyrir kosningar í vor hafi verið stofnað sérstakt félag, „Samtök um Reykjavíkurlista“ með sjálfstæða kennitölu, og þetta félag hafi síðan sótt um listabókstaf til yfirkjörstjórnar, þá sé þetta félag ekki eiginlegur aðstandandi listans heldur þeir fjórir stjórnmálaflokkar, sem tóku sig saman um framboð árið 1994. Hann telur þetta formsatriði engu máli skipta og ekki heldur það að forsvarsmenn R-listans lögðu á það mikla áherslu að nöfn flokkanna, sem tekið höfðu sig saman um listann, kæmu ekki fram á kjörseðli, heldur aðeins nafn hinna nýju samtaka. Við kosningarnar 1994 lögðu forsvarsmenn R-listans einnig mikið kapp á að fá nöfn flokkanna máð af kjörseðlinum enda væri framboðið á vegum Reykjavíkurlistans.

Greinargerð Jóns er auðvitað lítils virði lögfræðilega, enda ganga skýringar hans í berhögg við eðlilega lögskýringu á ákvæðum sveitarstjórnarlaga og byggja þar að auki á því að við framkvæmd þeirra laga skipti formsatriði, sem gerð er krafa um í kosningalögum, engu máli. Hitt er aftur á móti efnislega rétt hjá Jóni, að auðvitað vissu og vita allir að R-listinn er ekki til nema sem kosningabandalag nokkurra gamalla stjórnmálaflokka, sem á sér engan tilveru- eða sameiningargrundvöll annan en andstöðuna við Sjálfstæðisflokkinn. Í ljósi þessa eru tilraunir Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og annarra forsvarsmanna R-listans fyrir kosningar til að kynna „Reykjavíkurlistann“ sem sjálfstætt stjórnmálaafl í besta falli grátbroslegar. Þá er líka skoplegt að leiða hugann að því hversu mikil áhersla var lögð á að fá „óháðan“ frambjóðanda í 9. sæti R-listans, sæti 1. varamanns, því nú er komið í ljós að aldrei stóð til að hleypa viðkomandi að sem varamanni á fundum borgarstjórnar. Það verða fulltrúar gömlu flokkanna sem skipta þeim bitum á milli sín eins og öðrum.