Þriðjudagur 30. júní 1998

181. tbl. 2. árg.

Ef marka má fréttir dynur nú sú óáran yfir þjóðina að hér virðist sem smjör drjúpi af hverju strái. Verðbólga er lág, hagvöxtur mikill, kaupmáttur vex ört og mikið er flutt inn af erlendum gersemum. Minna er hins vegar flutt út, sem veldur auknum skuldbindingum okkar erlendis. Mikið er um þessa „hættu“ rætt og fréttamenn hafa það eftir hinum og þessum að lausnin á þessum mikla „vanda“ sé annað hvort að hækka skatta eða minnka útgjöld hins opinbera til að greiða hraðar niður skuldir. Já, annar kosturinn sem þessir vísu menn gefa upp er að hækka skatta, rétt eins og hér sé fyrir einhver hættulega mikil skattaparadís.

Nú kann að vera að einhverjum þyki ríkið vera hógvært, að taka „aðeins“ um 40% af framleiðslu landsins til sín. Þeir hinir sömu vilja kannski að hér geti popparar sungið eins og Bítlarnir forðum í laginu Skattmann:

„Nú skal ég segja þér hvernig þetta verður
Það er einn fyrir þig, nítján fyrir mig
Því ég er skattmann

Þakkaðu fyrir að tek það ekki allt.“

En flestir eru vonandi ósammála þessu og átta sig á því að nær allar ríkisstjórnir hafa í gegnum tíðina hækkað skatta en ekki lækkað þá. Reglan hefur alls ekki verið sú að í hallæri séu skattar lækkaðir en hækkaðir í góðæri, eins og draumóramenn ímynda sér enn, heldur hefur reglan nær undantekningalaust verið sú að skattar hafa verið hækkaðir.

Þess vegna er eina leiðin til að mæta þenslunni sú að lækka útgjöld hins opinbera og greiða niður skuldir. Skorti ríkið hugmyndir um niðurskurð þarf ekki annað en fletta fjárlögum ársins lauslega því þar er af nógu að taka. En auðveldast er auðvitað að fara ekki út í ný kostnaðarsöm verkefni. Vandræðalaust er að hætta við óþarfan flutning Ríkissjónvarpsins af Laugarvegi yfir í Efstaleiti, en þar sparast um 1-2 milljarðar króna. Svo má nefna tónlistarhúsið, sem var til umfjöllunar hér í gær. Tilvalið er að hætta athugun á þátttöku hins opinbera í því. Þar sparast líklega ekki undir 4 milljörðum króna.

Þá væri nær að beina þeim vinnustundum sem hið opinbera setur í undirbúning aukinna útgjalda vegna tónlistarhúss og álíka verkefna í að skipa nefndir sem hafa það hlutverk að koma með tillögur um niðurskurð. Þær nefndir væru þó í versta falli tiltölulega skaðlausar.

Stærstu umhverfisvillur okkar tíma heitir bók sem nýbúið er að gefa út í þýskalandi. Höfundarnir hafa fengist mikið við umhverfismál og fjalla í þessari bók um alls kyns misskilning og rangfærslur sem þeir telja að vaði uppi í umræðunni um umhverfismál. Þeir nefna t.d. að ekki hafi verið sýnt fram á að jörðin sé að hitna. Á síðustu 100 árum sé hækkunin einungis 0,5ºC, og þegar lengra tímabil sé skoðað sé ljóst að hiti hafi alls ekki hækkað.

Þeir nefna einnig að mengun í umhverfi okkar hafi minnkað, þannig hafi loftmengun í Þýskalandi af völdum þungmálma minnkað um u.þ.b. 60-90 % á síðustu 10 árum. Annað sem þeir nefna er að barátta gegn einnota hlutum, eins og t.d. pappírsbleyjum, sé stundum á misskilningi byggð. Þannig séu einnota bleyjur ekki verri fyrir umhverfið en margnota.

Einnig draga höfundar bókarinnar í efa að umhverfismengun hafi þau áhrif á astma sem hingað til hefur verið haldið. Rannsókn í borgunum Erfurt og Hamborg sýni að í þeirri borg sem mengunin var mun meiri var tíðni astma mun lægri. Greint er frá því að rannsókn Evrópusambandsins á þessu hafi leitt í ljós að erfðir séu aðal áhrifavaldurinn þegar astmi er annars vegar.