Miðvikudagur 1. júlí 1998

182. tbl. 2. árg.

Þeir sem undanfarin ár hafa barist fyrir því pólitíska markmiði einu, að „sameina vinstri menn“, halda hinu og þessu fram sér til framdráttar. Ein kenningin er, að nú hafi það gerst fyrir nokkrum árum að vinstri menn í Háskóla Íslands hafi sameinast í Röskvu og „það fólk ætli sko ekki í skotgrafirnar aftur“ og því sé eiginlega sjálfgert að sameina Alþýðubandalag og Alþýðuflokk. Nú sjá flestir að framboð í skólafélagi eins og Stúdentaráði Háskóla Íslands er ekki röksemd með eða móti tiltekinni skipan stjórnmálaflokka í landinu. Engu að síður má kanna hvað er hæft í þessari kenningu.

Rétt er, að tvö félög takast jafnan á í kosningum til Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Vaka, sem er rúmlega sextug og Röskva, sem stofnuð var fyrir áratug. En með því er ekki sagt að nýlega hafi orðið einhver þau tímamót í framboðsmálum sem „kalli á uppstokkun flokkakerfisins“. Fyrir stofnun Röskvu hafði starfað mikill fjöldi vinstri félaga í Háskólanum. Ekki er hins vegar svo að þau hafi öll starfað á sama tíma og svo sameinast í þessari Röskvu. Vinstri menn í Háskóla Íslands hafa aðeins, eins og vinstri menn annars staðar, neyðst til að skipta um nafn aftur og aftur síðustu áratugi og Röskva er það nafn sem þeir hafa notað undanfarin ár.

Þegar Röskva var stofnuð var „Félag vinstri manna“ einfaldlega lagt niður en ekki var um það að ræða að mörg félög „jafnaðarmanna“ sameinuðust. Auk þess var lítið hálfdautt félag lagt niður á sama tíma og runnu reytur þess líklega inn í Röskvu, en þar voru hvorki alþýðubandalagsmenn né kratar á ferð og kemur þetta því sameiningartalinu þessa dagana ekki við. Þetta var „Félag umbótasinnaðra stúdenta“, sem taldi sig til miðjumanna. Þar voru í fararbroddi menn sem engum dettur í hug að blanda í sameiningartalið í dag, til dæmis menn eins og Finnur Ingólfsson iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Ari Edwald aðstoðarmaður sjávarútvegsráðherra.

Því er ljóst að ekkert hefur breyst í framboðsmálum í Háskóla Íslands sem kemur sameiningarmálum vinstri manna við. Það eina sem kann að hafa breyst, er að undanfarin ár hafa í forystusveit vinstri manna þar valist menn sem er algerlega sama um grundvallaratriði í stjórnmálum. Þeim mönnum finnst vitaskuld fráleitt að menn láti ólíkar skoðanir á meginatriðum stjórnmálanna skipta sér í flokka. Þeir munu aldrei skilja að stjórnmál snúist um eitthvað fleira en að reyna að komast sjálfir að kjötkölum. Fyrir þeim verður fyrirkomulag framboðs alltaf heitasta hugsjónamálið.

Það hefur vakið athygli margra hve mikinn áhuga DV hefur sýnt uppsögnum hjúkrunarfræðinga á undanförnum dögum og vikum. Næstum því daglega eru birtar þar stríðsfyrirsagnir á forsíðu um þær ógnir sem steðja að þjóðinni ef hjúkrunarfræðingarnir hætta. Einn daginn er sagt frá yfirvofandi vanda hjartasjúklinga, næsta dag er greint frá yfirvofandi vanda nýrnasjúklinga, þá er fjallað sérstaklega um vanda geðsjúkra og svo má lengi telja.

Ekki skal hér gert lítið úr þeim vanda sem upp getur komið á sjúkrahúsum ef hjúkrunarfræðingar gera alvöru úr hótunum sínum um að ganga þaðan út, en hins vegar verður að telja að DV og fleiri fjölmiðlar hafi farið offari í lýsingum sínum á yfirvofandi hörmungum. Hefur litið út fyrir að ýmsir fjölmiðlar, ekki síst DV, hafi viljað nota þetta mál til að koma höggi á ríkisstjórnina nú þegar innan við ár er til þingkosninga. Spyrja má, hvort formaður heilbrigðisnefndar Alþingis og helsti talsmaður stjórnarandstöðunnar í heilbrigðismálum, Össur Skarphéðinsson, hafi nokkuð reynt að hafa áhrif á ritstjórann Össur í sambandi við þessa umfjöllun blaðsins?