Mánudagur 29. júní 1998

180. tbl. 2. árg.

Jæja, þá ættu bæði áhugamenn um „tónlistarhús“ sem og skattgreiðendur að geta glaðst. Nú hefur „sérstök nefnd samgönguráðherra“ opinberað þá „niðurstöðu“ sína að „bygging tónlistar- og ráðstefnuhúss sé hagkvæm“. Er þess þá líklega skammt að bíða að einkaaðilar sjái sér leik á borði og byggi húsið. Sjálfsagt verður þar mikið kapphlaup, margir vilja eflaust verða fyrstir til og sitja sem lengst einir að ábatanum af hinu hagkvæma húsi. Þá hljóta skattgreiðendur nú að varpa öndinni léttar, útilokað er að menn fari að biðja hið opinbera að reisa fyrir sig hagkvæmt hús.

Því verður nefnilega ekki trúað að óreyndu, að nefndin, undir forystu Árna Mathiesen, sé svo ósvífin að meina það eitt, að það væri hagkvæmt fyrir einhverja einkaaðila að hið opinbera byggði fyrir þá hús. Að minnsta kosti verður að telja útilokað að hagkvæmt sé fyrir hið opinbera að byggja hús sem þetta.

Eins og margir vita, skuldar íslenska ríkið nú þegar milljarða króna, bæði erlendis sem hér heima. Einungis vaxtagreiðslur af þessum skuldum nema milljörðum króna á hverju ári. Árni Mathiesen segir að fyrstu hugmyndir um húsið geri ráð fyrir að það kosti allt að fjórum milljörðum króna – fjögur þúsund milljónum. Gefum okkur að ríkið hafi nú handbærar fjögur þúsund milljónir króna sem það vildi gera eitthvað við. Það væri sérkennilegur hagfræðingur sem teldi beinlínis hagkvæmara fyrir ríkið að nota þessa peninga til að byggja tónlistarhús en að lækka skuldirnar.

Þá er rétt að menn hafi í huga að ekki er nóg að byggja „tónlistar- og ráðstefnuhúsið“. Árni Mathiesen vill að í húsinu verði tveir salir, annar fyrir tólf hundruð manns, hinn fyrir átta hundruð. Hvað halda menn að kosti að reka svona hús? Þær mega aldeilis vera glæsilegar og linnulausar ráðstefnurnar sem eiga að borga upp fjögur þúsund milljóna hús, standa straum af vaxtagreiðslum af fjögur þúsund milljóna lánum sem hefði verið hægt að borga upp, og síðan að reka húsið. Sem eftir þetta allt á að vera „hagkvæmt“.

Krafa um lögbundin lágmarkslaun eða hækkun þeirra hefur tíðum verið vinsælt vopn í herbúðum pólitískra lýðskrumara. Í nýjasta tölublaði The Economist segir frá skýrslu OECD um lágmarkslaun sem út kom í þessum mánuði. Rannsóknir skýrsluhöfunda gefa til kynna að lögbinding lágmarkslauna bitni á atvinnumöguleikum ungs fólks, því það hafi ekki orðið sér úti um þá reynslu og þekkingu sem geri það eins verðmætt á vinnumarkaði og hina eldri. Þessi áhrif eru, eins og við er að búast, þeim mun meiri sem lágmarkslaun eru nær meðallaunum viðkomandi hóps, eða m.ö.o. þá verður atvinnuleysið þeim mun meira sem lágmarkslaunin eru hærri.

Skýrsluhöfundar komast einnig að því að lög um lágmarkslaun gagnast lágtekjuheimilum heldur ekki nema að litlu leyti, því mikill minnihluti þeirra sem hækka mundu í launum kemur frá lágtekjuheimilum. Ástæðan er t.d. sú að þótt annar maki sé ef til vill með lág laun þá hífa laun hins meðaltal heimilisins upp. Niðurstaðan er því sú að lágmarkslaun kunna að vera snjöll stefna í stjórnmálaskaki, en síður heppileg til að leysa vanda þeirra sem minna mega sín.