Helgarsprokið 28. júní 1998

179. tbl. 2. árg.

Um síðustu helgi kom hópur stríðshrjáðra flóttamanna frá Serbíu til Blönduóss þar sem þeim er ætlað að setjast að. Áður hafa slíkir hópar komið og sest að á Ísafirði og Höfn í Hornafirði. Ástæða er til að fagna því að Ísland verði þannig griðland flóttamanna sem flúið hafa styrjaldir og kúgunarstjórnir. Hins vegar virðist félagsmálaráðherra ganga eitthvað fleira til en mannkærleikur þegar hann tekur á móti þessum flóttamönnum því ekki verður betur séð en innflutningur þeirra sé hluti af byggðastefnu Framsóknarflokksins. Strax eftir komuna hingað eru flóttamennirnir drifnir út á land og fengin búseta á svæðum þar sem byggð er almennt á undanhaldi, í því markmiði að styrkja byggðina. Þannig var t.d. greint frá því í fjölmiðlum að með flutningi Serbanna til Blönduóss hefði íbúatala kauptúnsins komist yfir eitt þúsund. Skiljanlegt er að sveitarfélög úti á landi sækist eftir flóttamönnunum því félagsmálaráðuneytið veitir margvíslega fyrirgreiðslu vegna móttöku flóttamannanna, tekur að sér ýmsan kostnað og greiðir fyrir rándýrar félagslegar íbúðir sem viðkomandi sveitarfélög sætu annars uppi með. Þess er gætt að skipta flóttamönnunum jafnt á milli kjördæma. Vestfirðir, Austurland og Norðurland vestra hafa fengið sitt og því kæmi ekki á óvart að „víkjandi“ byggðarlag á Norðurlandi eystra (e.t.v. Grímsey), Suðurlandi eða Vesturlandi væru næst að kjötkötlum Páls Péturssonar.

Verst er að í þessari veislu allri virðist hagur flóttamannanna fyrir borð borinn. Ef hugsað væri um heill þeirra væri sú leið farin að kynna landið fyrir þeim og þeim leyft að velja hvort þeir vilji fremur búa á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi. Þetta fólk kemur frá þéttbýlum Balkanskaganum og það eru mikil viðbrigði að koma í íslenskt kauptún með eitt þúsund íbúa norður við Íshaf. Ef þetta fólk fengi sjálft að velja er líklegt að það myndi flest velja að flytjast í þéttbýlið á höfuðborgarsvæðinu, þar sem öll þjónusta er fyrir hendi, þ.á.m. öflug stoðþjónusta fyrir nýbúa. Á höfuðborgarsvæðinu búa einnig nokkrir Serbar sem ómetanlegt væri fyrir hina nýju Íslendinga að eiga aðgang að. Sú leið sem félagsmálaráðherra velur við innflutning á flóttamönnum er ekki aðeins dýrari og óhagkvæmari en hún þyrfti að vera heldur einnig ómannúðleg. Auðvitað taka flóttamennirnir við því sem að þeim er rétt, einnig staðarvalinu. En með því að hola þeim niður í smábæi hér og þar um landið er líklegt að þeir festi ekki rætur og noti fyrsta tækifæri sem gefst til að komast í umhverfi sem hentar þeim betur. Fari svo verður Íslandsdvöl þeirra ekki annað en framlenging á því rótleysi sem þeir hafa þurft að búa við á síðustu árum.