Helgarsprokið 14. júní 1998

165. tbl. 2. árg.

Dómsmálaráðuneytið bandaríska er þeirrar skoðunar að skattfé þarlendra sé best varið til að standa í átökum við fyrirtækið Microsoft, en ráðuneytið liggur nú yfir rúmri milljón blaðsíðna frá fyrirtækinu til að reyna að hafa betur þegar fyrir dómara verður komið. Þetta fyrirtæki er nú um stundir stærst á forritunarmarkaðnum og framleiðir sem kunnugt er langvinsælasta stýrikerfi heims. Dómsmálaráðuneytið er þeirrar skoðunar að Microsoft hafi náð einokunarstöðu á markaðnum og sé að misnota þá meintu stöðu.

Tal um að tiltekin fyrirtæki á frjálsum markaði hafi náð einhvers konar einokunarstöðu er þekkt úr fleiri geirum atvinnulífsins og kom t.d. upp þegar Myllan keypti Samsölubakarí á dögunum. Þetta er engu að síður misskilningur á því hvað einokun er og hvers vegna hún er varasöm. „Einokun“ í tilvikum eins og þessum tveimur sem hér eru nefnd er vitaskuld engin einokun, heldur er einungis um það að ræða að tiltekin fyrirtæki hafa náð sterkri stöðu á markaðnum vegna þess að neytendur kunna að meta framleiðslu þeirra. Einokun í skjóli ríkisverndar er hins vegar sú einokun sem ástæða er til að óttast enda er hún almenningi óhagstæð og ekki komið á með hag hans fyrir augum. Því fer fjarri að Microsoft njóti ríkisverndar og nær væri að tala um að þau fyrirtæki sem Microsoft keppir við njóti verndar, a.m.k. óbeinnar, þar sem Microsoft þarf að nota verulega fjármuni í að verja hendur sínar og stendur því verr að vígi en ella. Því má segja að samkeppnislöggjöfin hafi snúist upp í andhverfu sína. Hún átti upphaflega að vernda neytendur en er þess í stað beitt til varnar þeim fyrirtækjum sem keppa við það sem best hefur gengið.

Ekki er ástæða til að óttast að Microsoft eða önnur fyrirtæki í svipaðri stöðu muni ná óþolandi markaðsyfirráðum. Engar hindranir eru til staðar fyrir keppinautana og hagnaðarvonin er mikil fyrir þann sem tækist að skáka Microsoft og koma fram með betri forrit. Þess vegna er Microsoft í stöðugri samkeppni við fjölmarga fjársterka aðila sem leggja mikið undir til að reyna að hafa betur.

Auk þess kennir sagan okkur að fyrirtæki halda slíkri stöðu aldrei til langframa. Á síðasta áratugi var IBM með yfirburðastöðu í tölvuheiminum og átti þá í höggi við samkeppnisyfirvöld í Bandaríkjunum. Þær „áhyggjur“ sem menn höfðu þá af IBM reyndust óþarfar, því tækniframfarir breyttu stærðarhlutföllum á þessum markaði. Sama saga hefur endurtekið sig í gegnum aldirnar, upp koma voldug fyrirtæki og fjölskyldur, en svo breytast aðstæður og þau sem skamma stund virðast nánast stefna á heimsyfirráð verða fljótt að engu.

Þetta mál gegn Microsoft er margslungið og snýst líka um rétt framleiðenda til að ráða vörum sínum. Menn geta spurt sig hvers vegna hið opinbera á að ákveða hvað skuli fylgja með tilteknum vörum sem seldar eru. Og í þessu tilviki er reyndar líka spurt um hvernig tiltekið forrit eða tiltekinn forritshluti (Internet Explorer) má fylgja með öðru forriti eða öðrum hluta forrits (Windows 98). Þetta er orðið afar snúið og sérkennilegt ef það á að ákvarðast í dómsölum hvernig þróun í forritagerð á að vera. Það væri nógu slæmt ef dómstólar væru fengnir til að ákveða hvaða aukahlutir fylgdu með ýmsum öðrum vörum, t.d. hvort bílaframleiðandi má láta útvarp frá sér fylgja með bílum sínum. Hins vegar er staðan enn verri þegar forritagerð er annars vegar, enda þróunin þar svo hröð að margra ára stapp fyrir dómstólum er tæpast til þess fallið að bæta hag neytenda. Og þessi öra og ófyrirsjáanlega tækniþróun er líka meginástæða þess að enn ólíklegra er en ella að Microsoft nái að halda yfirburðum sínum til lengri tíma.