Mánudagur 15. júní 1998

166. tbl. 2. árg.

Geir H. Haarde fjármálaráðherra gefur góðar vonir um að þétt verði haldið um buddu skattgreiðenda, ríkissjóð, á meðan hann gegnir embætti. Í grein í Morgunblaðinu á laugardag undir fyrirsögninni „Nauðsyn aðhalds í ríkisfjármálum“ segir hann m.a.: „Það eru hins vegar gömul og ný sannindi að oft er erfiðara að hafa stjórn á efnahagsmálum í góðæri líkt og nú ríkir á Íslandi en þegar erfiðleikar steðja að. Þess vegna er afar mikilvægt að varðveita þennan árangur og slaka hvergi á við stjórn efnahagsmála. Þetta á ekki síst við um ríkisfjármálin, því þau gegna lykilhlutverki í hagstjórn hér á landi.“

Geir hnykkir svo á þessum orðum sínum með því að geta þess að nú sé mikilvægt að „reka ríkissjóð með myndarlegum afgangi til þess að búa í haginn fyrir framtíðina“. Undir þessi orð ættu flestir að geta tekið, enda hljóta Íslendingar að hafa fengið sig fullsadda af útþenslu ríkisins með tilheyrandi skattahækkunum og skuldasöfnun. Tími aðhalds hlýtur að vera kominn.

Ekki virðast þó allir geta tekið undir að aðhalds sé þörf, a.m.k. ekki þegar kemur að sérstökum áhugamálum þeirra sjálfra. Þannig segir t.d. í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins um helgina: „Það er enginn ágreiningur lengur um það, hvort byggja skuli tónlistarhús og kannski hefur hann aldrei verið fyrir hendi.“ Mogginn skýrir svo frá því að þetta tónlistarhús geti orðið „þekkt um allan heim ekki síður en óperuhúsið í Sidney“! Hætt er við að dagdraumar af þessu tagi geti gert allar hugmyndir um aðhald í ríkisfjármálum að engu verði þeir teknir alvarlega.

Annars verður ekki séð að því ætti að fylgja nokkur vandi að byggja hér tónlistarhús án þess að ágreiningur skapist. Samkvæmt úttekt Viðskiptablaðsins er Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, ekki minna en 2.500 milljóna króna virði. Hafi menn þar á bæ áhuga á tónlistarhúsinu er bara að taka upp veskið. Þá geta þeir sem minni áhuga hafa fengið að eiga sín veski í friði.