Laugardagur 13. júní 1998

164. tbl. 2. árg.

Bandaríkin hafa um árabil háð „stríð gegn fíkniefnum“ og flest önnur ríki hafa einnig beitt sér af miklum þunga í baráttu gegn útbreiðslu efnanna. Nú tala ríki heims enn um að efla þessa baráttu og hafa Sameinuðu þjóðirnar haldið sérstakt aukaallsherjarþing af þessum sökum. Þó er því miður næsta víst að árangurinn verður áfram minni en enginn, þ.e. vandinn heldur áfram að aukast með hertum aðgerðum.

Ein af afleiðingum banns við neyslu fíkniefna er mikil fjölgun afbrota sem stafa af því að fíklar eru að afla sér fjár til að kaupa þessi efni, sem vegna bannsins eru margfalt dýrari en þau þyrftu að vera. Þess vegna er í dag ekki nóg með að fíklarnir sjálfir fari hörmulega út úr efnunum heldur er allur almenningur í hættu. Þessi vandi mun ekki leysast fyrr en banninu verður aflétt. Þá verður auðveldara að fást við þá mun færri glæpi sem áfram munu tengjast neyslu efnanna og auðveldara verður að aðstoða þá sem þjást vegna fíknar og ofneyslu efnanna.

Að aflétta banninu við neyslu fíkniefnanna er eina raunhæfa leiðin í baráttunni við þann vanda sem fíkniefnin valda. Hugmyndir um fíkniefnalaust Ísland árið 2002 eða fíkniefnalausa jarðarkringlu nokkrum árum síðar eru vitaskuld settar fram af fólki sem vill vel, en afleiðingarnar verða þó aukinn vandi en ekki minni. Hugmyndir í þá átt að aflétta banninu hafa orðið æ algengari eftir því sem vandi sá er banninu fylgir hefur aukist. Margir hafa ritað um þetta efni síðustu árin og má finna mikið lesefni um þetta mál á Netinu. Free-Market.net hefur tekið saman lista yfir heimasíður sem fjalla um þetta mál og þeirra á meðal er síðan DrugSense sem er ágætur byrjunarreitur fyrir þá sem vilja kynna sér þetta ögn nánar.