Föstudagur 12. júní 1998

163. tbl. 2. árg.

Tvær ágætar greinar um fiskveiðistjórnun birtust í Mogganum í gær. Báðar eru þær til þess skrifaðar að benda á holan hljóm í málflutningi Alþýðuflokks og annarra auðlindaskattssinna í fiskveiðistjórnunarmálum. Aðra greinina skrifa Illugi Gunnarsson og Orri Hauksson. Þeir fjalla um hugmyndir Sighvats Björgvinssonar í efnahagsmálum og segja hann fylgja þenslu- og skattahækkunarstefnu. Sighvatur hafi gerst talsmaður aukinna útgjalda hins opinbera og vilji m.a. nota auðlindaskatt á sjávarútveg til að greiða þessi auknu útgjöld. Það sé því komið í ljós að auðlindaskattsmenn ætli sér að hækka skattbyrði almennings (auk þess sem sagan sýni að hefðbundnir skattar lækki ekki með tilkomu nýrra skatta).

Illugi og Orri sýna einnig fram á fáránleika þess að ætla að selja þá aukningu í veiðiheimildum sem nú er möguleg. Hagsmunir útgerðarfyrirtækja af skynsamlegri fiskveiðistjórnun verði að vera fyrir hendi. Auk þess spyrja þeir hvort ríkisvaldið eigi að greiða útgerðum þegar niðurskurðar er þörf, en eins og mönnum er kunnugt tóku útgerðir á sig bótalausan niðurskurð fyrir nokkrum árum og eru nú að uppskera fyrir það.

Hin greinin er eftir Daníel Sigurðsson kennara við Vélskóla Íslands og ber yfirskriftina „Aumasta betlimál samtímans“. Hann fjallar um bréf sem kratar sendu sjómönnum fyrir allnokkru. Hann tekur sérstaklega fyrir þá furðulegu, en lífseigu, kenningu að útgerðir hafi fengið veiðiheimildir að gjöf. Hann segir m.a.: „Þegar framsal veiðiheimilda var gefið frjálst féll markaðsverð sjálfra skipanna og bátanna og mörg fleytan varð nánast verðlaus. Þetta var það gjald sem útgerðarmenn í raun greiddu fyrir framseljanlegar aflaheimildir.“

Við þetta má svo bæta því að vitaskuld er ekki hægt að líta á það sem gjöf þótt ríkið sinni þeirri skyldu sinni þegar skortur er orðinn á auðlind, eins og varð í sjávarútveginum, að skilgreina eignarrétt á auðlindinni. Það er að snúa hlutunum við að halda því fram að útgerðir hafi fengið réttinn til veiða að gjöf þegar takmarka þurfti veiðina. Það sem gerðist þegar veiðiheimildunum var úthlutað var einungis það að útgerðirnar voru ekki sviptar réttinum til áframhaldandi veiða. Það er sérkennilegt að kalla það gjöf að fá að halda áunnum réttindum.