Miðvikudagur 10. júní 1998

161. tbl. 2. árg.

Að undanförnu hafa staðið yfir deilur milli verkalýðshreyfingarinnar og Samskipa um lífeyrisgreiðslur hluta starfsmanna fyrirtækisins. Fyrirtækið hefur um langt skeið greitt til Samvinnulífeyrissjóðsins vegna þessara starfsmanna, en verkalýðshreyfingin krefst þess að greiðslurnar renni í lífeyrissjóðinn Framsýn, sem að hluta til lýtur hennar stjórn. Hér verður ekki svarað þeirri spurningu, hvers vegna forsvarsmenn Samskipa (og annarra fyrrum Sambandsfyrirtækja) vilja endilega að greiðslurnar fari í Samvinnulífeyrissjóðinn, og ekkert verður hér fullyrt um að það tengist þeirri viðleitni þeirra að styrkja valdastöðu sína í viðskiptalífinu.

Varðandi þátt verkalýðshreyfingarinnar kemur fátt á óvart í þessu máli. Hún hefur lengi talið sig hafa ráðstöfunarrétt yfir lífeyrissparnaði launamanna, óháð því hver vilji þeirra sjálfra er í þessum efnum. Það sem hins vegar er nýstárlegur málflutningur af hálfu talsmanna verkalýðsfélaganna er að vísa í félagafrelsisákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála máli sínu til stuðnings, eins og gert hefur verið að þessu sinni. Nú eru aðstæður með þeim hætti, að umræddir starfsmenn Samskipa vilja sjálfir frekar greiða til Framsýnar en Samvinnulífeyrissjóðsins og þá hentar það verkalýðsforkólfunum að veifa fána félagafrelsins. Vilji einhverjir sjóðfélagar Framsýnar eða annarra skyldubudninna lífeyrissjóða hins vegar skipta um sjóð og færa sig til dæmis yfir til Lífeyrissjóðsins Einingar eða Frjálsa lífeyrissjóðsins, þá eiga engin félagafrelsisrök við að þeirra mati. Þá fylgja þeir kröfum sínum til lífeyrisréttindanna eftir með lögfræðiinnheimtu og málarekstri fyrir dómstólum!

Þegar þetta mál er skoðað er ljóst, að ekkert er eðlilegra en að starfsmenn Samskipa fái að greiða til þess lífeyrissjóðs sem þeir kjósa, hvort sem það er lífeyrissjóðurinn Framsýn eða einhver annar sjóður. Má því taka undir málflutning verkalýðshreyfingarinnar að því leyti. Vilji talsmenn verkalýðshreyfingarinnar hins vegar að einhver taki mark á þeim verða þeir að láta félagafrelsisrökin ná til alls launafólks og berjast gegn nauðungaraðild þess að tilteknum lífeyrissjóðum (og verkalýðsfélögum ef út í það er farið). Ef starfsmenn Samskipa eiga að fá að velja sér lífeyrissjóð, hvað þá um hafnarverkamennina hjá Eimskip? Hvað um skrifstofufólkið hjá Flugleiðum og afgreiðslufólkið hjá Hagkaup? Á ekki eitt yfir alla að ganga í þessum efnum?