Föstudagur 29. maí 1998

149. tbl. 2. árg.

Í dag er skattadagurinn. Hann er fyrsti dagur ársins sem menn vinna fyrir sjálfa sig en ekki hið opinbera, ef litið er svo á að fyrst vinni menn fyrir sköttum en svo fyrir sjálfa sig. Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, hefur vakið athygli á þessum tímamótum undanfarin ár og er það þarft verk í ljósi þess hversu umsvifamikið hið opinbera er hér á landi.

Á súluritinu hér að neðan má sjá þróunina síðustu tæpa tvo áratugi. Hún hefur verið í rétta átt allra síðustu ár eftir að hafa tekið mikið stökk í ranga átt þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, Jóns Baldvins Hannibalssonar og Ólafs Ragnars Grímssonar, þáverandi fjármálaráðherra, reið húsum.

Ástæða þess að skattadagurinn færist í rétta átt er því miður ekki sú að ríkisvaldið hafi verið duglegt við að skera niður þótt stjórnarandstaðan virðist að vísu halda að hér sé skorið hvatlega niður hvar sem hníf verði brugðið. Ástæðan er sú að þótt útgjöld hins opinbera hafi vaxið hefur landsframleiðslan vaxið mun hraðar.

Sumt af því sem nýr fjármálaráðherra hefur sagt gefur vonir um að skynsamlega verði haldið á málum á næstunni. Þannig sagði hann í sjónvarpi í gær að spara ætti til mögru áranna og að hann vildi að ríkissjóður yrði rekinn með drjúgum afgangi á næstunni. Útgjaldaaukning eins og sú sem minnst var á hér í gær (hækkaður styrkur til ÍSÍ) er þó ekki til þess fallin að fullvissa skattgreiðendur um að stigið verði þungt á útgjaldabremsuna. Annað gefur þó vísbendingu um að efndir eigi að fylgja orðum, t.d. staðfesta þegar kröfur forystumanna Stúdentaráðs um hækkun námslána eru annars vegar. Engin ástæða er til að hækka námslán um meira en sem nemur verðlagshækkunum og vonandi munu stjórnvöld ekki láta í minni pokann fyrir þrýstihópi á borð við launaða starfsmenn Stúdentaráðs Háskóla Íslands.