Laugardagur 30. maí 1998

150. tbl. 2. árg.

Skrifræði er til umfjöllunar í þýska dagblaðinu Bild í dag. Þar er sagt frá ungri konu sem stofnaði klæðskerafyrirtæki fyrir nokkrum árum. Ganga viðskiptin ágætlega og hefur hún fimm starfsmenn. Sá galli er þó á gjöf Njarðar að skrifræðið er alveg að fara með hana. Áður en hún stofnaði fyrirtækið þurfti hún að sauma sig í gegnum hálfa tylft opinberra stofnana og eftir að reksturinn hófst hefur ástandið enn versnað. Henni ber t.d. að hafa sérstakan lækni fyrir starfsmennina og sinnir hann þeim í 0,75 klst. á ári, auk þess sem hún þarf að fara á sérstakt námskeið um atvinnuöryggi. Þegar kemur að skattauppgjörinu tekur það endurskoðanda tvær vikur að fara yfir það fyrir þennan litla rekstur.

Svo varð ein starfsstúlkan ófrísk og varð eigandi fyrirtækisins þá að greiða henni 250.000 kr., sem gekk mjög nærri fyrirtækinu. Nú segist hún ekki lengur ráða ungar konur í vinnu og er þetta vissulega umhugsunarefni fyrir þá sem telja sig ná jafnrétti með aðferðum á borð við lögbundið fæðingarorlof.

Þessi unga athafnakona situr í um 15 klst. á viku við að fylla út skýrslur fyrir hið opinbera. Það hefur verið reiknað út að skrifræðið kostar tæpar 300.000 krónur á ári á hvern starfsmann í Þýskalandi og víst er að hérlendis er líka um stórar upphæðir að ræða í þessu sambandi.

Það er því fleira en skattar sem kostar fyrirtæki og einstaklinga stórfé og skattadagurinn, sem haldinn var í gær, væri mun aftar á árinu ef allur kostnaður sem hið opinbera leggur á einkaaðila væri reiknaður með.