Fimmtudagur 28. maí 1998

148. tbl. 2. árg.

Afreksmannasjóður ÍSÍ fær á næstu árum 50 milljónir króna frá skattgreiðendum skv. „samkomulagi“ ÍSÍ við mennta- og fjármálaráðherra. „Ég tel sérstaka ástæðu til að þakka menntamálaráðherra, Birni Bjarnasyni, fyrir framgöngu hans og skilning(!) á þessu máli,“ sagði forseti ÍSÍ af þessu tilefni og þótti ráðherrann oft hafa sýnt íþróttamönnum „skilning(!) og velvild.“ Á mannamáli þýðir þetta að ráðherrann hefur oft verið rausnarlegur við þennan tiltekna þrýstihóp á annarra kostnað og er það síður en svo hrósvert.

Ráðherrann sagði þetta vera niðurstöðu „mikillar vinnu“ ráðuneytisins við að efla íþróttir. Skattgreiðendur hljóta að vona að ráðuneyti gæti þess í framtíðinni að ráða ekki hamhleypur til vinnu. Leti er greinilega dyggð þegar ráðuneyti eru annars vegar.

Gunnar Smári Egilsson skýrði frá því í útvarpspistli sínum í fyrradag að ólíkt því sem haldið hefur verið fram þá jók R-listinn ekki við fylgi sitt í kosningunum á laugardag. R-listinn fékk 167 atkvæðum minna en fyrir fjórum árum og það þrátt fyrir að 6% fleiri hefðu atkvæðisrétt. Þeim sem ekki greiddu framboðunum fjórum atkvæði fjölgaði hins vegar um meira en 50% og því má segja að flokkur þeirra sem láta sig kosningarnar engu varða hafi borið sigur úr býtum.

Gunnar Smári ræddi auk þessa um málefnafátækt vinstri manna og nefndi sem dæmi að hann hefði ekki enn getað fundið út hvaða skoðanir Helgi Hjörvar hefur, þrátt fyrir að hafa reynt að kynna sér þær um hríð. En þetta er í sönnum anda sameiningarsinna á vinstri vængnum. Ekki má ræða stjórnmál því þau stefna sameiningunni í voða. Sameiningin verður að snúast um það eitt að ná völdum. Sem betur fer virðast kjósendur hafa séð í gegnum þetta innantóma valdabrölt vinstri manna, því sameinuð framboð biðu víðast afhroð í kosningunum nú.

Elsa B. Valsdóttir flutti síðasta pistil sinn (í bili a.m.k.) á Rás 2 í fyrradag. Hún fjallaði m.a. um mikilvægi einstaklingsfrelsisins.