Föstudagur 15. maí 1998

135. tbl. 2. árg.

Í Viðskiptablaðinu í vikunni er haldið áfram að fjalla um viðskipti Þjóðviljans sáluga og Landsbankans. Þar kemur m.a. fram að þingflokkur og framkvæmdastjórn Alþýðubandalagsins samþykktu í maí árið 1989 að veita Þjóðviljanum tryggingu fyrir greiðslu á 15 milljón króna láni til 3 – 4 ára. Í yfirlýsingu sem þessir aðilar sendu Björgvini Vilmundarsyni bankastjóra Landsbankans segir: „Tryggingin felst í því að ofangreindar stofnanir Alþýðubandalagsins lýsa því yfir að lánið verði greitt niður af blaðstyrk næstu ára skv. fjárlögum.“

Það er óneitanlega undarlegt að ráðstafa skattfé nokkur ár fram í tímann. Fjárlög eru ákveðin til eins árs í senn. Að vísu var Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráðherra á þessum tíma og því hæg heimatökin fyrir Alþýðubandalagið að tryggja að blaðastyrkurinn frá skattgreiðendum héldi áfram að berast á meðan svo væri. Þó var ljóst að kosningar yrðu áður (þ.e. í síðasta lagi vorið 1991) en standa ætti skil á tveimur greiðslum. Það má því segja að Alþýðubandalagið hafi verið búið að veðsetja að úrslit þingkosninga yrðu því hagstæð og flokkurinn héldi þar með blaðastyrknum frá skattgreiðendum!

Illugi Jökulsson er pistlahöfundur á Rás 2 þar sem við skattgreiðendur borgum honum úr sameiginlegum sjóðum fyrir hvert orð. Er því ekki að undra þótt Illugi láti oft til sín taka þegar grunur leikur á um að sameiginlegir sjóðir okkar landsmanna hafa mátt taka á sig útgjöld vegna mistaka einstakra manna. Hefur hann ekki sparað sleggjudómana þegar svo stendur á. Í gærmorgun flutti Illugi pistil sinn að vanda og biðu hlustendur spenntir eftir því að Helgi Hjörvar og Hrannar B. Arnarsson fengju á baukinn vegna þeirra fyrirtækja sem þeir hafa keyrt í þrot með þeim afleiðingum að einstaklingar og opinberir aðilar hafa glatað kröfum upp á tugi milljóna. En eitthvað hefur það vafist fyrir Illuga að kveða upp dóma í þessum málum þótt þaulvanur sé. Þess í stað ræddi hann um hálendið og þrjár þjóðsagnapersónur, þau Fjalla-Eyvind, Höllu og Guðna Ágústsson.