Fimmtudagur 14. maí 1998

134. tbl. 2. árg.

Forsjárhyggjan birtist í ýmsum myndum og eru sumar vel sýnilegar, eins og tíðar kröfur um aukin útgjöld í hitt og þetta, en aðrar eru betur faldar. Ein þeirra er samþykkt þings Evrópusambandsins í gær um að banna allar tóbaksauglýsingar innan fárra ára. Það verða ekki aðeins beinar auglýsingar sem fá að fjúka heldur líka óbeinar, þ.á.m. vörumerki eins og Camel skór. Eins og við var að búast olli þessi samþykkt miklum deilum og gera sumir þingmenn ráð fyrir að henni verði hnekkt fyrir dómi, enda hafi Evrópusambandið ekki rétt til að ákveða svona nokkuð.
Það breytir þó ekki þeirri hugsun sem skín í gegn, að frelsi manna, m.a. til að tjá sig, sé heldur léttvægt og að í lagi sé að skerða það ef ráðamönnum þóknast. Það virðist nefnilega stundum eins og fólk haldi að ef sem það býr við lýðræði sé allt í lagi. Meirihlutinn geti bara kosið hvað sem er yfir sig og minnihlutann og meirihluti þingmanna megi í framhaldi af því samþykkja hvað sem er. Þeim samþykktum megi svo bara breyta í næstu kosningum ef meirihlutinn vill. En eins og allir sjá þegar þeir hugsa sig um þá virkar lýðræðið alls ekki svo vel og jafnvel þótt það virkaði fullkomlega þá eru viss grundvallarréttindi manna með þeim hætti að meirihlutinn hefur enga heimild til að skerða þau.

Í gærkvöldi var birt ný skoðanakönnun sem gaf til kynna að bilið milli Sjálfstæðisflokksins og R-listaflokkanna hefði minnkað um helming á stuttum tíma. Af því tilefni var rætt við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, núverandi borgarstjóra, í fréttum beggja sjónvarpsstöðva. Í báðum viðtölunum sagði Ingibjörg Sólrún að hún hefði verið viss um það, allt frá áramótum, að fylgi R-listans færi að minnka. Ef það er satt hjá henni, hefur hún ekki verið ýkja sigurviss um það leyti. Um áramótin voru fylkingarnar jafnar í könnunum og um mánaðamótin janúar/febrúar náði R-listinn 52% fylgi gegn 48% D-listans.

Nú þegar sígur á seinni hluta kosningabaráttunar í sveitarfélögum landsins er ekki að efa að harkan eykst. Vonandi munu frambjóðendur og stuðningsmenn þeirra gæta þess að hún fari ekki úr böndum. Leitt væri, ef til virðingarmikilla embætta kæmust þeir sem hafa tamið sér stóryrði og óheiðarleg vinnubrögð. Gömlum og nýjum frambjóðendum til áminningar má vitna hér til þess sem Skíði frá Óslandi segir í Svarfdæla sögu:

„Hygg að því Grís að þú leggir það eina til með mönnum að þá sé eigi verr með mönnum eftir en áður.“

Vef-Þjóðviljinn óskar sameiningartákni þjóðarinnar, Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrrverandi fjármálaráðherra, til hamingju á afmælisdaginn.

Elsa B. Valsdóttir flutti nýjasta pistil sinn í Ríkisútvarpinu síðastliðinn þriðjudag. Hann fjallaði um ríkisvandann í heilbrigðiskerfinu og er hér ástamt fyrri pistlum.