Ýmsum leikur forvitni á að vita hvað Jóhanna Sigurðardóttir hefur að segja um fjármálaferil Hrannars B. Arnarssonar og Helga Hjörvars. Jóhanna hefur sem kunnugt er gjarna látið vaða á súðum um meint fjármálaafglöp manna. Um mál þeirra Helga Hjörvars og Hrannars B. Arnarssonar hefur hún hins vegar þagað sem gröfin þótt hún slái nú hvert kjaftametið á fætur öðru í þingsölum. En líklega þarf ekki að spyrja Jóhönnu hvað henni þyki um frammistöðu þeirra sem lenda í fjármálaóreiðu. Hún svaraði því skýrt og skorinort í þingræðu um aðgerðir gegn skattsvikum í apríl á síðasta ári:
Gefum Jóhönnu Sigurðardóttur orðið:
Eins spyr ég hvort fjármálaráðherra hafi í hyggju aðgerðir til að draga úr kennitöluskiptingu, þ.e. að hægt sé að halda áfram sama atvinnurekstri undir nýju auðkenni, en skila ekki vörslusköttum og öðrum gjöldum til hins opinbera. Ég tel, virðulegi forseti, að það sé farið mjög mildum höndum um þá sem gera slíkt og það er öðruvísi en annars staðar á Norðurlöndum en þróunin þar er sú að auka heimildir til leyfissviptingar vegna brota í atvinnurekstri. En hér er það þannig að þeir sem gera sig gjaldþrota og sleppa síðan við að greiða vörsluskatta geta á nýjan leik, aftur og aftur kannski, hafið sama reksturinn undir nýrri kennitölu.
Lesendum til fróðleiks má svo benda á 40. gr. vsk.-laga:
Skýri skattskyldur maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því er máli skiptir um virðisaukaskatt sinn eða afhendi hann eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum bar að innheimta skal hann greiða fésekt allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, vanrækt var greiðsla á eða endurgreidd var um of og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri þessari skattfjárhæð. Álag skv. 27. gr. dregst frá sektarfjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.