Þriðjudagur 21. apríl 1998

111. tbl. 2. árg.

Ekki er enn ljóst hvaða stefnu baráttan fyrir borgarstjórnarkosningarnar mun taka. R-listinn hefur enn ekki lagt fram stefnuskrá sína, þannig að óljóst er hverju hann ætlar að lofa upp í ermina á sér. Þegar við bætist að ekki liggur fyrir hver stefna D-listans á að verða, þ.e. hvort hún á að verða eyðslustefna að hætti vinstri manna eða aðhaldssemi að hætti hægri manna, þá má segja að kjósendur geti enn ekki vitað í hvorn fótinn þeir eiga að stíga.

D-listinn hefur réttilega gagnrýnt R-listann harkalega fyrir eyðslusemi, skattahækkanir og skuldasöfnun. Skattar hafa hækkað um 2 milljarða króna á kjörtímabilinu og borgarstjóri þurfti um daginn að viðurkenna að skuldir borgarinnar hefðu auk þess hækkað um 6 milljarða króna, öfugt við það sem áður hafði verið gefið í skyn. Sjálfstæðismenn segja að skattahækkanir R-listans hljóði upp á 40-120 þúsund krónur á hverja fjölskyldu á kjörtímabilinu og að þeir muni leggja af holræsaskatt R-listans.

Það skýtur þess vegna skökku við að sjálfstæðismenn skuli á sama tíma leggja áherslu á ýmis útgjaldafrek verkefni sem enga nauðsyn ber til að fara út í og má þar sem dæmi nefna tónlistarhús. Einn frambjóðenda sjálfstæðismanna sagði á Bylgjunni í síðustu viku að tónlistarhúsið yrði ekki orðin tóm næðu þeir völdum og lét þess jafnframt getið að þeir létu þann 1,5 milljarð króna sem húsið mundi kosta ekki stöðva sig. Það þarf ekki mikla reiknikunnáttu til að finna út að þetta er sambærileg upphæð og sjálfstæðismenn gagnrýna (hina?) félagshyggjuflokkana fyrir að hafa hækkað skatta um. Að vísu kann að vera að fleiri en Reykjavíkurborg muni koma að byggingu hússins, en í ljósi reynslunnar er jafnframt líklegt að húsið verði mun dýrara en fyrstu áætlanir gera ráð fyrir.

Rauðu herdeildirnar í Þýskalandi luku starfsemi í gær með formlegum hætti. Þessar „herdeildir“ voru arftaki Baader-Meinhof hópsins alræmda og áttu liðsmennirnir sér þann draum heitastan að vinna bug á kapítalísku samfélagi og beittu morðum og hryðjuverkum til að freista þess að ná því markmiði sínu. Vegna pólitískrar stefnu þeirra er ekki úr vegi að kalla þá alþjóðajafnaðarmenn og því að vissu leyti táknrænt að þeir skuli leggja upp laupana á fæðingardegi frægasta jafnaðarmanns sögunnar, þjóðernisjafnaðarmannsins Adolfs Hitlers.

Vegna mola hér í Vef-Þjóðviljanum þann 17. þ.m. um ævisögu Esra Péturssonar sálpælis hefur borist athugasemd frá lesanda.