Mánudagur 20. apríl 1998

110. tbl. 2. árg.

Tilvistarkreppa krata og komma kemur fram í ýmsum myndum. Sú nýjasta er tillaga helstu forsprakka þeirra á þingi um að tekið verði upp fyrirbæri sem þeir kalla starfsmannalýðræði. Gengur hún í stuttu máli út á að í stað þess að eigendur fyrirtækja skipi í stjórnir þeirra verði eigendum gert skylt að hafa tæpan helming stjórnarmanna úr röðum starfsmanna. Ágúst Einarsson þingmaður Þjóðvaka eða Alþýðuflokks og einn af tillöguflytjendum sagði í útvarpi um daginn að tillagan ætti að auka framleiðni, bæta kjör og væri „hluti af nútímastjórnun“. Það væri betra fyrir fyrirtækin að hafa þennan háttinn á en að stjórnin væri eingöngu skipuð fulltrúum eigenda.

Nú er það svo að þingmaðurinn Ágúst Einarsson er einn af stærri hluthöfum í Granda hf. en hefur þó aldrei komið með tillögu á aðalfundi þess fyrirtækis um að starfsmenn skyldu kosnir í stjórnina. Í stað þess að beita afli sínu í fyrirtækinu til að kjósa starfsmann í stjórnina hefur Ágúst meira að segja kosið að sitja þar sjálfur í stjórn. Hvernig á því stendur að hann vill gera fyrirtækinu slíkan óleik skal ósagt látið, en hlýtur að vera ábyrgðarhluti.

Það skyldi þó aldrei vera að ástæðan væri sú að Ágúst veit þrátt fyrir allt að fyrirtækjum farnast best þegar eigendur þeirra halda um stjórnvölinn. Tillagan verður því að flokkast undir það lýðskrum sem þingmenn Þjóðvaka hafa verið þekktir fyrir.

Gert er ráð fyrir því í ofannefndri tillögu um „starfsmannalýðræði“ að hún skuli eiga við um fyrirtæki með 35 starfsmenn eða fleiri. Það gefur auga leið hver afleiðingin verður yrði hún samþykkt (sem Ágúst Einarsson treystir líklega á að verði ekki). Fyrirtæki mundu gæta þess að fara ekki yfir þessa tölu en skipta sér þess í stað upp. Það sem í raun væri eitt fyrirtæki yrði skipt upp í mörg til að sleppa undan reglunni. Þessu mundi fylgja aukinn stjórnunarkostnaður og mikið óhagræði en slíkt skiptir litlu þegar menn þurfa að slá sig til riddara í stjórnmálum.

Loks má geta þess að tillagan minnir óneitanlega á stefnu Alþýðubandalagsins fyrir nokkrum árum. Á fundi í MH skömmu fyrir fall múrsins var fulltrúi Æskulýðsfylkingar Alþýðubandalagsins, Hrannar Arnarsson, núverandi frambjóðandi R-lista, að kynna stefnu (þáverandi) flokks síns. Hann sagði þá að rétt væri að þjóðnýta fyrirtæki með 20 starfsmenn eða fleiri og fannst hreint ekki ástæða til að hafa óþarfa áhyggjur af eignarrétti eða álíka smámunum. Sama á við um tillögu „jafnaðarmanna“ nú. Eignarrétturinn skiptir engu og eins langt er gengið og hægt er til að svipta menn ráðstöfunarrétti eigna sinna. Fyrir fall múrsins þótti boðlegt að tala um að þjóðnýta meðalstór fyrirtæki, nú þora vinstri menn ekki að halda því fram en halda sig þó við að skerða frelsi manna til ráðstöfunar eigna sinna eins og kostur er og tíðarandinn leyfir.

23. til 27. ágúst á þessu ári verður haldin í Berlín ráðstefna á vegum ISIL (International Society for Individual Liberty) í samvinnu við þýska hugmyndabankann LAB (Liberale Akademie Berlin) um eitt og annað tengt frjálshyggju. Rætt verður um möguleikana sem sköpuðust við fall Berlínarmúrsins, áhrif ríkisafskipta á atvinnulífið, samþjöppun pólitísks valds, einkapeninga, Netið, framleiðslu einkaaðila á almannagæðum og margt fleira. Þeim, sem áhuga hafa á að kynna sér málið nánar, er bent á heimasíðu ráðstefnunnar.