Miðvikudagur 22. apríl 1998

112. tbl. 2. árg.

Eitt af mörgu sem umhverfisverndarsinnar hatast við eru umbúðir. Frægur er áróður þeirra fyrir því að menn kreisti appelsínur sínar sjálfir í stað þess að kaupa tilbúinn appelsínusafa í fernu, plastdollu eða glerflösku. Móðir náttúra hefur að þeirra mati búið til bestu umbúðirnar þ.e. appelsínubörkinn. Til að draga úr mesta samviskubiti fólks þegar það kaupir sér tilbúinn ávaxtassafa má geta þess að verksmiðjur ná mun meiri safa úr appelsínunni en venjulegur heimakreistari og hratið sem eftir verður í verksmiðjum er nýtt í dýrafóður en heima endar það í ruslinu sem flytja þarf á haugana. Auk þess er mun dýrara að flytja ferskar appelsínur til neytenda en tilbúinn safa enda eru þær nær sjöfalt þyngri en sambærilegt magn af tilbúnum safa á fernu. Það má því segja að sjö trukkar bruni með appelsínurnar í búðir til þeirra neytenda sem kreista sjálfir á meðan einn sér um að flytja safa  til þeirra neytenda sem hafa ekki fallið fyrir boðskap umhverfisverndarsinna.

Út er komin hjá CATO Institute bókin Climate of Fear eftir Thomas Gale Moore. Í bókinni er því haldið fram að ef andrúmsloftið muni hlýna verði það flestum til blessunar. Moore heldur því fram að hlýnun muni auka uppskeru og bæta lífskilyrði víðast hvar á  jörðinni og því eigi Bandaríkjaþing að standa gegn öllum tilraunum til að takmarka útblástur koltvísýrings. Moore hvetur menn jafnframt til að halda sig niðri á jörðinni í umræðum um þessi mál og reyni að bæta þekkingu sína á þessum málum með rannsóknum.
Hvort kenningar hans sjálfs eru jarðbundnari en þær sem ganga út á að allt sé á heljarþröm vegna gróðurhúsaáhrifa skal ósagt látið. En bókin er vissulega ágætt innlegg í umræðu sem fremur hefur mótast af pólítískum rétttrúnaði en staðreyndum. Bókina má í kaupa hjá CATO fyrir $9.95.