Miðvikudagur 15. apríl 1998

105. tbl. 2. árg.
Því er stundum haldið fram að fáar stéttir í landinu taki háskólastúdentum fram í heimtufrekju og sjálfsánægju. Hér kann að vísu að vera ómaklega vegið að starfsmönnum Ríkisútvarpsins en engu að síður er ljóst að forystumenn stúdenta finna yfirleitt töluvert til sín og þykir staða sín all merk. Að vísu eru þeir ekki svo miklir oflátungar að telja að allir stúdentar séu svo ánægðir með forystumenn sína að óhætt sé að gefa aðild að Stúdentaráði frjálsa. En að öðru leyti virðist sjálfsálitið með öflugasta móti. Í nýjasta tölublaði Stúdentablaði er viðtal við nýjan formann Stúdentaráðs, Ásdísi Magnúsdóttur, þar sem hún ræðir meðal annars um stefnuna í menntamálum: „Það sem mér er efst í huga er að Björn Bjarnason heldur því á lofti að vert sé að ræða hvort taka beri upp skólagjöld við Háskóla Íslands. Þarna greiðir okkur á í grundvallaratriðum og skólagjöld munum við aldrei samþykkja og því þarflaust að ræða um þau.“ Þar fór það!
Nei, það er líklega rétt hjá formanninum nýja; það er þarflaust að ræða við svona fólk.
Annars þykir vafalaust mörgum kaldranalegt að heyra hvernig forysta Röskvu talar oft um Björn Bjarnason. Sést þar að sjaldan launar kálfur ofeldið.

Bruninn í húsakynnum Kópavogslistans er kannski táknrænn fyrir listann sjálfan: Mikill hiti í upphafi en slökkvistarf gengur greiðlega. Fljótt kemur í ljós að þarna var aðallega reykur og á eftir eru upptökin mönnum hulin ráðgáta…

Elsa B. Valsdóttir ræddi um tvískinnung okkar Íslendinga í áfengismálum í pistli sínum á Rás 2 í gærmorgun.