Þriðjudagur 14. apríl 1998

104. tbl. 2. árg.

Ýmsum kann að virðast sem afsögn bankastjóranna þriggja í Landsbankanum sé lausn á miklu vandamáli. Jóhönnu Sigurðardóttur þingmanni Þjóðvaka þykir sjálfsagt sem grundvallarbreyting hafi orðið á ríkisbönkunum. En er svo? Næstu daga mun pólítískt skipað bankaráð Landsbankans rhf. væntanlega ráða nýja bankastjóra. Verða það betri menn en hurfu úr stólum sínum í gær? Um það er erfitt að segja en hins vegar munu sömu freistingar bíða nýju bankastjóranna og blasa við öllum forstjórum ríkisfyrirtækja. Þar er nefnilega hægt að hygla sjálfum sér og vinum sínum á kostnað annarra.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur staðið dyggan vörð um ríkisrekstur bankanna og þar með um kerfið sem býður upp á daglegar freistingar. Hún ber ekki minnsta ábyrgð á því að tugum milljóna hefur verið varið í laxveiði á kostnað skattgreiðenda en sem kunnugt er fékk Landsbankinn verulega ríkisaðstoð á meðan Jóhann sat í ríkisstjórn þar sem hún gerði sitt besta til að koma í veg fyrir einkavæðingu bankanna.
En Jóhanna má svo sem eiga það að hún hratt af stað atburðarás sem gaf af sér sýnishorn af ríkisrekstri fyrirtækja. Næstu daga mun Jóhanna því vafalaust baða sig í dýrðarljómanum – sem stafar af því að koma upp um spillingu í kerfinu sem hún sjálf telur það eina rétta.

Sennilega mega stuðningsmenn skylduáskriftar að Ríkissjónvarpinu gleðjast meir en aðrir yfir hinu frábæra veðri sem var um páskana. Ef hefðbundið páskahret hefði hrakið landsmenn að sjónvarpsskjánum er hætt við að það hefði runnið upp fyrir æði mörgum að þessum 2.000.000.000 krónum sem RÚV tekst að koma í lóg á hverju ári væri ef til vill betur varið annars staðar. Til dæmis hjá þeim sem afla þessara króna og hafa aldrei beðið um neitt Ríkisútvarp.