Mánudagur 13. apríl 1998

103. tbl. 2. árg.

Á sama tíma og Íslendingar borða páskaegg í ómældu magni án nokkurrar utanaðkomandi aðstoðar (nema ef vera skyldi hópþrýstings), eru kynstrin öll af hrísgrjónum gefin Norður-Kóreu. Á hinu hrjóstruga Íslandi drýpur smérið af hverju strái – eins og það var orðað í fyrstu landkynningunni – en í gjöfulu landi Norður-Kóreu er ekkert til. Þar ríkir hungursneyð á meðan við fyllum okkur af súkkulaði eftir að hafa gert páskalambinu góð skil. Og hver er ástæðan? Er þetta bara einhver tilviljun? Eru kannske einhverjar ytri aðstæður með þeim hætti að ekki varð við neitt ráðið í Norður-Kóreu og hungursneyð skall fyrirvaralaust á? Nei, ekki aldeilis. Þarlend stjórnvöld hefðu getað séð þetta fyrir hefði viljinn verið fyrir hendi, enda bera þau fulla og alla ábyrgð á ástandinu.

Hagkerfið í Norður-Kóreu er löngu hætt að virka eftir langvarandi stjórn sósíalista, félagshyggjumanna, jafnaðarmanna eða hvað þeir nú vilja kalla sig. Ekki hefur mátt nota markaðsöflin við dreifingu og framleiðslu lífsgæðanna og því hefur fjármunum verið sóað. Slíkt gerist alltaf þegar markaðsöflin eru að einhverju leyti tekin úr sambandi og því lengra sem gengið er í þá átt þeim mun meiri verður sóunin. Þegar skrefið er stigið til fulls eins og í Norður-Kóreu verða hörmungar ekki um flúnar. Þegar styttri skref eru stigin – eins og t.d. hérlendis – verða afleiðingarnar ekki jafn hörmulegar. Slík afskipti þýða þó alltaf minni velmegun.