Fimmtudagur 16. apríl 1998

106. tbl. 2. árg.

Guðmundur Árni Stefánsson þingmaður hefur sent einkareknum banka kröfu um að bankinn  upplýsi sig um útgjöld vegna veisluhalda, laxveiða og fleira. Telur Guðmundur sig eiga rétt á þessum upplýsingum sem viðskiptavinur bankans. Nú hefur enginn neytt Guðmund til að eiga viðskipti við bankann en hins vegar eru landsmenn neyddir til að eiga viðskipti við Guðmund Árna með því að greiða honum laun í hverjum mánuði. Það væri því ekki úr vegi að Guðmundur upplýsti landsmenn um sín persónulegu útgjöld t.d. vegna reykinga, áfengisdrykkju, veiðiferða og utanlandsferða, enda má segja að þetta sé allt meira og minna á kostnað skattgreiðenda um land allt eftir að sjóðir Hafnfirðinga voru þurrausnir.

Þess má svo geta að Guðmundur Árni var í félagi með Jóhönnu Sigurðardóttur í síðustu ríkisstjórn um að tefja einkavæðingu ríkisbankanna. Þessir varðhundar kerfisins leyfa sér nú að gagnrýna kerfið sem þeir hafa staðið vörð um og bæði hafa þau tekið þátt í því sem þingmenn að kjósa flokksgæðinga sína í bankaráðin.

Þjóðremba er  hvimleið. Einkum þegar hún lendir á þeim er síst skyldi. Forseti Íslands hefur t.d. gætt þess í hvívetna að gera ekki of mikið úr „hlutverki Íslands á næstu öld“ eða í „samfélagi þjóðanna“ eins og það er gjarna orðað. Það var því nokkuð áfall fyrir menn að aka fram hjá versluninni Bónus á Seltjarnarnesi í gær en forsetinn var í opinberri heimsókn í bænum. Við verslunina hafa ætíð blakt gulir fánar með hinu fagurbleika skjaldarmerki forseta en í gær höfðu þeir mátt víkja fyrir íslenska þjóðfánanum.

Þessa dagana fer fram úrslitakeppni fullorðinna drengja í hand- og körfuknattleik. Það vekur athygli íþróttaáhugamanna að í fréttum Stöðvar 2 og Bylgjunnar er körfuboltanum ætíð gerð veglegri skil en handboltanum. Í Ríkisútvarpinu er handboltinn hins vegar ætíð númer eitt í fréttatímum. Einhverjir vilja tengja þessa forgangsröðun í fréttatímum útsendingarrétti Stöðvar 2 og Sýnar  frá körfuboltanum og útsendingarrétti Ríkisútvarpsins frá handboltanum. Sú röksemd að  nauðsynlegt sé að reka ríkisútvarp til að gæta hlutleysis í fréttaflutningi virðist því ekki gilda um boltaleiki.