Í síðasta pistli sínum á heimasíðu sinni, greinir menntamálaráðherra frá því að hann hafi þegið „boð frá Félagi leikskólakennara, sem fagnaði því, að leikskólakennaranám væri komið á háskólastig“. Segir Björn að sér hafi þótt það „ánægjuleg stund“. Ekki skal efast um það að bæði ráðherrann og fóstrurnar hafi skemmt sér ærlega á þessum tímamótum en hér skal því haldið fram að menntamálaráðherra hefði getað tekið sér margt þarfara fyrir hendur en að koma „leikskólakennaranámi“ á „háskólastig“. Öllu brýnna hefði verið að afnema það ákvæði 12. gr. laga nr. 78/1994 sem færir þeim sem lokið hafa prófi frá Fósturskóla Íslands einkarétt til að starfa að uppeldi barna á leikskólum. Ákvæði það hafa sjálfsagt samið góðgjarnir menn sem hafa viljað börnum allt hið besta. En ef svo mikill munur er á þeim sem lokið hafa þessu tiltekna prófi og hinum sem ekki hafa gert það, má þá ekki álíta að það sé ábyrgðarhluti af hinu opinbera, að láta viðgangast að fjölda barna séu búin þau örlög að vera bara alinn upp heima hjá sér? Af foreldrum sem hafa bara alls ekki lokið háskólanámi í barnagæslu.
Nú kann að vera að yfirvöld menntamála hafi ekki frétt af því, en þeir eru til, sem hafa í æsku sinni farið á mis við leiðsögn þeirra sem hafa lokið sérstöku prófi úr opinberum uppeldisskóla, en þykja engu að síður hafa komist til nokkurs þroska. Vef-Þjóðviljinn leyfir sér að vekja athygli menntamálaráðherra á því, að í áranna rás hafa ýmsir foreldrar sjálfir séð um uppeldi barna sinna og gert það með þeim hætti að hvorugur aðili hefur haft vansæmd af. Það eru heldur nöturleg skilaboð frá yfirvöldum menntamála til þessa hóps, þegar ákveðið er með lögum að ekki séu aðrir en menn með háskólapróf í uppeldi hæfir til starfa á leikskólum.
Vef-Þjóðviljinn hefur áður vitnað í skrif Valdimars Kristinssonar hagfræðings. Á heimasíðu sinni hefur hann vikið að starfsfólki leikskóla og má ljúka þessari umfjöllun á orðum hans:
„Nú stendur til að að fjölga í Fósturskólanum til að anna eftirspurn dagheimila og leikskóla eftir starfsfólki. Getur verið að hafa mætti annan hátt á? Í leikskóla nokkrum fyrir mörgum árum, þar sem var ágætt starfsfólk, vann kona sem var ólærð í fræðunum og verulega eldri en aðrir á staðnum. Börnin löðuðust mjög að henni, enda hafði hún einstaklega gott hjartalag og þolinmæði, sem var sjálfsagt bæði meðfætt og áunnið með aldrinum en lærist lítt í skólum. Í þessu ljósi mætti hugsanlega skoða málið út frá nýju sjónarhorni. Margt fullfrískt eldra fólk á erfitt með að fá vinnu, en gæti vel unnið hálfa eða heila daga eftir aðstæðum. Þeir sem hafa gengið í gegnum þann háskóla lífsins að vera orðnir afar eða ömmur ættu að hafa reynsluna af að umgangast börn. Auðvitað hentar þetta ekki öllum, en án efa nægjanlega mörgum til þess að fylla mætti stöður aðstoðarfólks á dagheimilum og í leikskólum. Þetta gæti haft marga kosti. Fósturskólann þyrfti ekki að stækka, margir vinnufúsir fengju atvinnu og börnin umgengjust bæði karla og konur, en á það hefur mjög skort á þessum heimilum og er það þeim mun verra þegar mæður barnanna eru einstæðar. Jafnvægi þarf að ríkja í náttúrunni eftir því sem mögulegt er.“