Laugardagur 7. febrúar 1998

38. tbl. 2. árg.

Arnar Guðmundsson starfsmaður ASÍ ritar grein í Morgunblaðið á miðvikudag um þá tillögu nokkurra stjórnarandstöðuþingmanna að lágmarkslaun verði bundin í lög. Í greininni segir Arnar m.a. um þessa tillögu: „Það kann að vera freistandi tilhugsun fyrir einhverja stjórnmálamenn að geta lofað launafólki gulli og grænum skógum og gefið því stórhækkun lágmarkslauna í skóinn. Einfalt mál: Bara að setja ný lög. Ef til vill væri rétt að benda ríkisstjórnum landa þar sem fátækt er hvað útbreiddust á þessa töfralausn. Af hverju skyldi ekki bara verið löngu búið að þessu um heim allan? Það skyldi þó ekki vera að þetta sé ekki alveg svona einfalt?“ Svipað sjónarmið hefur verið viðrað hér í VÞ og er ánægjuefni að starfsmaður ASÍ skuli viðra sömu skoðun.

Arnar er þó ekki alveg samkvæmur sjálfum sér í greininni, því hann telur heppilegt að verkalýðshreyfingin beiti því valdi sem hún hefur til að knýja fram lágmarkslaun. Þetta er því miður ígildi lagasetningar, vegna forgangsréttar verkalýðsfélaga til atvinnu og jafngildi skylduaðildar launamanna að verkalýðsfélögunum. En Arnari er svo sem vorkunn að sjá þetta ekki, því hann fékk pólitískt uppeldi í Röskvu, samtökum félagshyggjufólks í Háskóla Íslands. Þau samtök eru eins og verkalýðshreyfingin að því leyti að þeim þykir eðlilegt að neyða alla stúdenta til að vera í Stúdentaráði Háskóla Íslands. Þegar Arnar verður farinn að ryðga í Röskvufræðunum áttar hann sig vonandi á því að miðstýringin er miðstýring hvort sem hún kemur úr rauðu húsi við Grensásveg eða er ættuð úr gráu húsi við Austurvöll.

Í þessu sambandi má geta þess að í stjórnarmyndunarviðræðum Alþýðuflokks, Sjálfstæðisflokks og Kvennalista árið 1987 gerði Kvennalistinn þá ófrávíkjanlegu kröfu að lágmarkslaun yrðu lögbundin. Eins og menn þekkja var ekki fallist á þetta skilyrði og Kvennalistinn sat utan stjórnar. Hvorki forystumenn Alþýðuflokks né Sjálfstæðisflokks vildu að gripið yrði til þessa óyndisúrræðis sem fækkar atvinnutækifærum, ekki síst fyrir ungt og ófaglært fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Í þessu ljósi var  heldur undarlegt að horfa á flesta þingmenn Alþýðuflokksins streyma í pontu á Alþingi í síðustu viku til að lýsa yfir stuðningi við frumvarp Gísla Einarssonar og fleiri um lögbindingu lágmarkslauna. Hefði frekar mátt ætla að á þessum rúma áratug sem liðinn er frá stjórnarmyndunarviðræðunum 1987 að skilningur manna á einföldustu atriðum efnahagsmála hefði  vaxið. Þess má geta að helstu forystumenn Alþýðuflokksins árið 1987 voru nafnarnir Hannibalsson og Sigurðsson. Er ef til vill ekki við góðu að búast þegar þeim hefur verið skipt út fyrir Gísla Einarsson og Ágúst Einarsson, prófessor í þjóðvakahagfræði.

Þeir Einarssynir virðast ekki átta sig á því að lagasetningar um laun eru ekkert annað verðlagshöft. Laun eru í flestum tilvikum háð verði á vöru eða þjónustu. Laun rakara eru t.d. mjög háð því hvaða verð hann setur upp fyrir klippinguna. Oft er það þannig að launin eru í öfugu hlutfalli við verðið. Sá rakari sem býður lægsta verðið fær flesta hausa og græðir mest. Nú er ekki gott að sjá hvernig kratarnir, sem vilja lögbinda lágmarkslaun, vilja snúa sér í dæmi rakarans. Ef þeir setja lög um lágmarksverð á klippingum fækkar væntanlega viðskiptavinum þeirra rakara sem buðu klippingu á lægra verði áður en lögin voru sett. Lög um lágmarkslaun myndu því valda þessum rökurum tekjumissi!

Samband ungra sjálfstæðismanna efnir þessa dagana til ritgerðarsamkeppni um Frelsispennann. Keppnin er ætluð fólki á aldrinum 16 – 20 ára. Vegleg peningaverðlaun eru í boði. Það að því miður sjaldgæft að stjórnmálaflokkarnir efni til örvandi umræðu af þessu tagi.

Elsa B. Valsdóttir flutti pistil um ríkisstyrki til menningar á Rás 2 á þriðjudaginn var. VÞ heldur pistlunum auðvitað til haga.