Föstudagur 6. febrúar 1998

37. tbl. 2. árg.

Í dag eru 87 ár liðin frá fæðingu Ronalds Reagans, fyrrum forseta Bandaríkjanna. Margir telja Reagan einn besta forseta sem Bandaríkjamenn hafa eignast, manninn sem gerbreytti viðhorfum fólks til hins opinbera og hugsunarhætti fólks um víða veröld. Vinstri menn eru Reagan hins vegar enn stórlega gramir og meðal þeirra verða lítil hátíðahöld í tilefni dagsins. Er það skiljanleg afstaða enda var Reagan forseti einlægur andstæðingur þess sem flestum vinstri mönnum er kærast: opinberra umsvifa og álaga á þegnana. Er því kannske ekki að undra að vinstri menn hafa reynt að bera forsetatíð Reagans sem verst vitni. Hafa ýmsar söguskýringar þeirra náð talsverðri útbreiðslu, m. a. hér á landi. VÞ lítur hér á örfáar þeirra en að sjálfsögðu verður mjög að stikla á stóru. Verður einkum stuðst við umfjöllun um þetta í tímaritinu Stefni, 1. tbl. 44. árg.

Vinstri menn hafa linnulaust notað sinn vinsælasta frasa um forsetatíð Reagans; þar hafi hinir ríkari orðið ríkari en þeir fátækari orðið fátækari. Þetta er aðeins að hálfu leyti rétt hjá þeim. Hinir ríkari urðu vissulega ríkari – en hinir fátækari urðu ríkari líka. Bandaríska hagstofan skiptir heimilum þar í fimm tekjuhópa. Meðaltekjur í tekjulægsta hópnum hækkuðu verulega og gerðist þetta þrátt fyrir að á þessum árum hafi milljónir fátækra innflytjenda flutt til Bandaríkjanna.

Þá er því gjarnan haldið fram að Reagan hafi verið verulega óábyrgur í ríkisfjármálum og látið þar allt reka á reiðanum. Er réttilega bent á að fjárlagahalli jókst á valdatíma Reagans og er skattalækkunum hans oft kennt um. Þessi kenning er engu að síður röng. Þrátt fyrir skattalækkanir (eða kannske frekar vegna þeirra) jukust tekjur ríkisins að meðaltali um 8% ári eftir að atvinnulífið tók að rétta úr kútnum árið 1982. Útgjöld ríkisins jukust hins vegar mun hraðar en tekjurnar og bar bandaríska þingið meginábyrgð á því. Demókratar höfðu alla tíð Reagans meirihluta í fulltrúadeild þingsins og í öldungadeildinni frá 1986 og þeir voru afar tregir til að fallast á niðurskurðartillögur Reagans. Kom þar iðulega til að Reagan þurfti að semja við demókrata um fjárframlög til varnarmála gegn því að samþykkja fjárframlög „heim í héruð“ demókrata.

Ófáir ímynda sér að Reagan hafi staðið fyrir þá hugsun að hver sé sjálfum sér næstur, betur stæðir loki sig af í sérstökum hverfum, hinir haldi til í skemmtigörðum með dagblöð sér til skjóls og enginn hafi viljað af þeim vita. Einnig þetta er rangt. Þetta komst e.t.v. á kreik vegna þess að í stjórnartíð Reagans kváðu dómstólar upp úrskurði um það að fólki væri heimilt að hafast við á götum borganna. Lögreglan fjarlægir ekki þá sem það gera, eins og hún gerir hins vegar víðast hvar í Evrópu. Húsnæðislausir urðu því sýnilegri en áður þó þeim hafi ekki fjölgað.
Þá skal þess eins getið hér að lokum að árin 1955-80 jukust heildarframlög Bandaríkjamanna til mannúðarmála um 3,3% á ári. Í stjórnartíð Reagans jukust þau aftur á móti um 5,1% ári. Ef mannúð má mæla í fjárútlátum til mannúðarmála jókst hún því í Bandaríkjunum í stjórnartíð Reagans.

En það sem ætti e.t.v. helst að gagnrýna Reagan fyrir er að hann var of hallur undir þá hópa í Bandaríkjunum sem vilja að ríkisvaldið hafi meiri afskipti af hegðun fólks en góðu hófi gegnir. Þetta er hinn íhaldssami armur Repúblikanaflokksins, en þá er ekki átt við íhaldssemi í fjármálum heldur í félags- eða siðferðismálum.