Hefurðu heyrt um eiturefnið dihydrogenmonoxíð (DHMO)? Ef svo er ekki má geta þess að efnið er mikið notað í efnaiðnaði og lekur oft í ár og vötn og berst þannig í lífkeðjuna. DHMO er líka burðarefni fyrir súrt regn og virkar sem meiriháttar gróðurhúsalofttegund þegar það gufar upp. Árlega deyja þúsundir sem andað hafa efninu að sér í nægilegu magni. DHMO hefur valdið brunasárum á líkömum milljóna saklausra einstaklinga. Efnið finnst einnig í krabbameinsæxlum. Vísindamenn eru almennt sammála um þessi skelfilegu áhrif DHMO. Í könnun sem European Science and Environment Forum gerði nýlega meðal vegfarenda í London kom í ljós að meirihluti aðspurðra vildi í ljósi ofangreidra upplýsinga takmarka notkun DHMO og jafnvel banna hana. Önnur könnun í Bandaríkjunum gaf svipaða niðurstöðu. VÞ hefur áreiðanlegar heimildir fyrir því að mikið af DHMO megi finna á heimilum og á vinnustöðum víðs vegar um landið.
Í ljósi þessara upplýsinga hlýtur Össur Skarphéðinsson að rita leiðara og semja nokkrar æsifréttir í DV um hættuna af DHMO. Gunnar Salvarsson, æsifréttamaður Ríkissjónvarpsins í umhverfismálum, hlýtur einnig að taka málið fyrir. Þá er kominn tími til að Hjörleifur Guttormsson geri fyrirspurn á Alþingi vegna málsins.
Þess má að lokum geta að DHMO er betur þekkt sem vatn (H2O).
Í umræðum á Alþingi í gær kom fram að nokkrir þingmenn Alþýðubandalagsins, Ögmundur Jónasson, Svavar Gestsson, Steingrímur J. Sigfússon og Hjörleifur Guttormsson, vilja afnema viðskiptabann á Írak. Þeir hafa einnig mælt gegn viðskiptabanni Bandaríkjanna á Kúbu. Þetta kemur nokkuð á óvart þar sem þessir þingmenn hafa verið þekktir fyrir flest annað en að mæla fyrir viðskiptafrelsi. Annað hvort hafa þeir því skipt um skoðun eða vilja gera undantekningu fyrir Saddam og Kastró. Ef þeir hafa skipt um skoðun er spurning hvort þeir vilja vera samkvæmir sjálfur sér og leyfa innflutning landbúnaðarafurða til Íslands frá Kúbu og Írak.