Fimmtán mínútur í eitt í nótt var kona nokkur tekin af lífi í Texas. Árið 1983 myrti hún ásamt félaga sínum tvær manneskjur, en virðist síðan hafa verið orðin ný og betri manneskja. Hún fékk þess vegna mikla samúð og margir börðust fyrir því að dauðadómnum yfir henni yrði breytt í lífstíðarfangelsi og auðvitað var m.a. sett upp heimasíða henni til stuðnings. Málið hefur vakið upp miklar umræður um öll Vesturlönd um dauðarefsingar og hafa sjónvarpsstöðvarnar mikið fjallað um þetta mál, bæði fyrir og eftir aftökuna. En á dauðarefsing rétt á sér?
Fylgjendur dauðrefsingar segja m.a.:
(1) Dauðarefsingin er mátuleg á þá sem tekið hafa líf annarra. Þeir hafa fyrirgert lífi sínu með virðingarleysi fyrir lífi annarra.
(2) Dauðrefsingin er víti til varnaðar og leiðir til færri voðaverka.
(3) Dauðarefsingin losar skattgreiðendur undan kostnaði við ævilanga vistun afbrotamanna.
Andstæðingar dauðarefsingar benda hins vegar einkum á:
(1) Í glæpamálum er alltaf einhver óvissa. Sannanir fyrir sekt manna eru aldrei óyggjandi. Dómsstólar eru ekki óskeikulir. Skárra er að sekur maður sleppi við dauðarefsingu (en fái í staðinn ævilangt fangelsi) en að saklaus maður sé deyddur.
(2) Rannsóknir á því hvort dauðarefsingar fæli menn frekar frá glæpum en lífstíðarfangelsun eru misvísandi enda hafa fleiri þættir en refsingin áhrif þar á.
(3) Fangar sem bíða dauðarefsingar eru dýrustu fangarnir. Endalausar áfrýjanir og sérmeðferð kostar sitt (en er nauðsynleg réttarríki). Allt tal um sparnað með dauðarefsingu er því út í loftið.
Þeir sem telja sig frjálslynda í stjórnmálaskoðunum (hér er ekki átt við þá sem telja frjálslyndi snúast um að fara frjálslega með annarra manna fé) hljóta líka að efast um að hægt sé að fela ríkisvaldinu rétt til að svipta fólk lífi. Þótt ríkið geti tekið sér margs konar vald verður samt að setja skorður við því hversu langt það má ganga. Það er vægast sagt erfitt fyrir ríkisvaldið að réttlæta það ef því verða á mistök og saklaus maður er tekinn af lífi. Ríkið verður að vera réttlátt eftir fremsta megni og geta bætt mönnum hugsanlegan skaða sem þeir verða fyrir af þess völdum, en hvernig á að bæta saklausum manni óréttmæta aftöku hans?
Vegna velgengni Íslenskrar erfðagreiningar eru menn farnir að hafa áhyggjur af skorti á fólki til að stunda rannsóknir, þ.á.m. læknum. Þetta leiðir óneitanlega hugann að þeim fjöldatakmörkunum sem í gildi hafa verið við læknadeild Háskóla Íslands. Háskólinn hefur ekki hleypt í gegnum fyrsta ár læknadeildar nema rúmlega 30 nemendum ár hvert og gefið þá skýringu að ekki væri hægt að koma fleirum fyrir á spítölunum. Þó rennir suma í grun að hluti skýringarinnar á fjöldatakmörkunum sé að útskrifaðir læknar hafi ekkert á móti því að ekki verði offramboð af læknum. Fleiri læknar þýddu væntanlega meiri samkeppni þeirra um stöður og því hugsanlega lægri laun. En nú má í öllu falli ætla að hefðu fleiri læknar verið útskrifaðir hefðu menn minni áhyggjur af því að ekki væri hægt að manna rannsóknarstofur.