Athyglisverðar staðhæfingar eru settar fram í leiðara DV í gær. Þar fullyrðir Össur Skarphéðinsson, frjáls og óháður ritstjóri, að árangur Helga Ú. Hjörvar og Hrannars Arnarssonar í prófkjöri R-listans hafi verið sérstaklega góður þar sem „einstakir forystumenn unnu leynt og ljóst gegn þeim.“ Nú hljóta menn að óska eftir að DV greini frá því hvaða forystumenn það eru sem unnu gegn þessum frambjóðendum í prófkjörinu. Ætti það að vera auðsótt mál enda „bregður DV skarpri egg sinni á meinsemdir samfélagsins og hlífir engum.“ DV hlífir forystuliði jafnaðarmanna áreiðanlega ekki frekar en öðrum.
Styttri vinnutími en óbreytt laun er ein af þeim tálsýnum sem stundum bregður fyrir í umræðu um þjóðmál og franski forsætisráðherrann Lionel Jospin hefur talað fyrir. The Economist fjallar um þetta mál í nýjustu útgáfu sinni og nefnir m.a. rannsóknir hagfræðings við Seðlabankann í Cleveland. Er bent á að kostnaður fyrirtækis aukist við að þurfa að ráða fleiri menn til að vinna sömu vinnu og því muni eftirspurn fyrirtækja eftir vinnuafli minnka. Ástæðan fyrir því að Jospin og fleiri telja að hægt sé að minnka atvinnuleysi með svo einföldum hætti er einmitt að þeir átta sig ekki á að hagkerfið lagar sig sífellt að aðstæðum og breytist því stöðugt. Hagkerfið er „dýnamískt“, eins og sagt er á máli hagfræðinnar, og því þarf alltaf að gæta þess að skoða afleiðingar af athöfnum stjórnvalda á hegðun fyrirtækja og einstaklinga.
Eins og menn vita geymir netið svo til allt sem nöfnum tjáir að nefna. Sumar síður eru þar vel þekktar og mikið lesnar. Einnig leynist eitt og annað utan alfaraleiðar sem þó er gaman að skoða. Valdimar Kristinsson hagfræðingur hefur haldið úti heimasíðu sem hefur farið hljótt. Þar skrifaði hann eitt sinn: Í júní sl. var auglýst eftir fólki til starfa á Alþingi. Mjög gott vald á íslenskri tungu var áskilið. Ennfremur var góð kunnátta í ensku og einu Norðurlandamáli talin æskileg. Þá var sérstaklega tekið fram að umsækjendur yrðu að geta starfað sjálfstætt og unnið undir álagi. Að lokum var þess getið að þeir sem til álita kæmu yrðu beðnir um að þreyta hæfnispróf. Þetta er mikil framför og löngu tímabær, – – en æ, því miður, auglýsingin fjallaði aðeins um hæfni ritara og aðstoðarfólks!