Mánudagur 9. febrúar 1998

40. tbl. 2. árg.

Flestir landsmenn hafa setið sveittir yfir skattframtali sínu um helgina enda lítill afli sem berst til vinnslu í frystihúsum, lítill snjór í Bláfjöllum og fátt annað nýtilegt við tímann að gera. A.m.k. ef marka má þá sem ákveða ár eftir ár að skattkerfið eigi að vera svo flókið sem frekast er unnt. Flóknar skattareglur eru ekkert annað en enn ein tegund skattheimtu og þennan skatt greiða menn með frítíma sínum.

Það segir ef til vil sína sögu að með skattframtalinu fylgir 40 síðna bæklingur í stóru broti þar sem farið er yfir helstu þætti framtalsins. VÞ var einkar ánægður með eftirfarandi leiðbeiningar í bæklingnum: „Leigulóðir skal færa til eignar á fasteignamatsverði. Heimilt er að draga frá því afgjaldskvaðarverðmæti sem er 15-föld lóðarleiga en hún kemur fram á fasteignagjaldaseðlum sveitarfélaganna 1997.“  Þar hafið þið það.

Á blaðsíðu 18 í leiðbeiningarbæklingi ríkisskattstjóra er fjallað um fyrirbærið sjómannaafslátt en það eru sérstök skattafríðindi til handa einni tekjuhæstu stétt landsins. Einmitt þessi stétt kærir sig ekki um að vinna þessa dagana þrátt fyrir hinar ágætu tekjur og skattfríðindin sem þeim fylgja. Því er mikið um það rætt að Alþingi setji lög sem skyldi sjómenn til vinnu. VÞ tekur undir það með sjómannaforystunni að slík lagasetning væri ótæk enda fráleitt að neyða þá til vinnu sem vilja ekki vinna og kæra sig þar með hvorki um háar tekjur né sérstök skattfríðindi. Nær væri að afnema lög sem útiloka aðra frá störfum þeirra og aflétta þeirri einokun sem stéttarfélög hafa haft á ákveðnum störfum. Það er ekki víst að allir fúlsi við þeim kjörum og skattfríðindum sem sjómenn búa við.

Í fréttum Stöðvar 2 í gærkveldi var rætt við Jóhönnu Sigurðardóttur um ríkisbankana en Jóhanna hefur komist að því að ríkisbankarnir eru jafnvel enn ömurlegri en hún hafði áður upplýst okkur um. Ekki er nóg með að flestir yfirmenn ríkisbankanna séu karkyns heldur fá karlkyns yfirmenn hærri bílastyrki en konur í sambærilegum stjórnunarstöðum. Þrátt fyrir allan þennan ömurleika ríkisbankanna vill Jóhanna og margir félagar hennar í Þjóðvaka (afsakið, þeir sem voru í sameiningaraflinu Þjóðvaka) halda sem fastast í ríkisrekstur á bönkunum.

Í nýjasta tölublaði Evrópufrétta sem VSÍ og Samtök iðnaðarins gefa út er greint frá því að innan skamms muni verða sett upp heimasíða sem „verður sú umfangsmesta á netinu en hún kemur til með að innihalda 800 þúsund skjöl.“ Já, 800 þúsund skjöl. Vafalaust grunar marga lesendur nú þegar hvaða skjöl eru hér á ferðinni. Og það var rétt! Öll löggjöf ESB. Síðan verður tengd síðu ESB. Verði ykkur að góðu.