Það er vandfundinn sá maður sem mun ekki taka þátt í hinu svonefnda neðanjarðarhagkerfi á nýbyrjuðu ári, t.d. með því að borga iðnaðarmanni án þess að fá kvittun o.s.frv. Engu að síður eru flestir tilbúnir að lasta þess háttar framferði og álíta slíka hegðun ósæmilega. Í nýútkomnu sérhefti The Economist, þar sem fjallað er um ýmislegt sem tengist því ári sem nú er nýverið gengið í garð er hins vegar bent á að ýmislegt gott megi segja um þessa starfsemi sem þolir tæpast dagsljósið.
Neðanjarðarhagkerfi heimsins eru talin hafa vaxið þrisvar sinnum hraðar en hin „löglegu“ á síðustu þremur áratugum og gert er ráð fyrir að á árinu 1998 muni þau ná því að verða 15% af VLF í iðnþróuðum löndum heims. Það er mjög mismunandi eftir löndum hve hlutfallið er hátt. Í Bandaríkjunum er það undir 10% en meira en 20% á Spáni og Ítalíu. Helstu ástæður þess hve neðanjarðarhagkerfin blómstra má rekja til hárra skatta, stirðrar vinnulöggjafar og reglugerðarfrumskógarins. Sem dæmi má nefna að í Frakklandi og á Ítalíu þurfa launagreiðendur að borga þrefalda þá upphæð sem launþeginn fær í vasann. Í Bandaríkjunum er reglugerðarfarganið með þeim hætti að vandinn við að greiða úr þeirri flækju er oft á tíðum dýrari en launatengdu gjöldin, t.d. þegar ráða á barnapíu. Venjulegur verslunareigandi í Rússlandi má eiga von á heimsóknum frá 19 opinberum eftirlitsstofnunun og því er engin furða þótt neðanjarðarhagkerfið þar í landi sé talið jafn stórt hinu opinbera.
En nú mætti halda að þetta væri allt hið versta mál, -en svo þarf ekki að vera. Auðvitað tapar hið opinbera skatttekjum og það er meira að segja hætta á að ríkið neyðist til að hækka einhverja skatta til að mæta þessu tapi, sem aftur hvetur menn til að reyna að komast hjá að borga þá. Á hinn bóginn skapar neðanjarðarhagkerfið ákveðinn sveigjanleika og ýmsir telja að tískuiðnaðurinn í Frakklandi hefði aldrei getað þrifist án þess. Einnig er líklegt að Ítalir megi þakka neðanjarðarhagkerfinu hve góðu lífi þeir hafa þó lifað, þrátt fyrir óteljandi „ó-stjórnir“ á síðustu áratugum. Vöxtur og viðgangur neðanjarðarhagkerfisins ætti að vera stjórnmálamönnum ákveðin lexía. Lærdómurinn sem á því má draga er ekki sá að auka skattaeftirlit heldur að draga úr hömlulausri skattheimtu og létta reglugerðafarganið.