Þriðjudagur 13. janúar 1998

13. tbl. 2. árg.
Það er ekkert nema ergilegt að þurfa að rita um ríkisstyrk Halldórs Blöndals samgönguráðherra til Flugfélags Íslands vegna áætlunarflugs til Raufarhafnar. Af einhverjum ástæðum hélt VÞ að svona sértækar aðgerðir heyrðu sögunni til. Það orkar auðvitað bæði tvímælis að styrkja flugsamgöngur á einn ákveðinn stað með þessum hætti þótt svo vilji til að staðurinn sé í kjördæmi samgönguráðherra. Hitt er ekki síður  vafasamt að láta eitt ákveðið fyrirtæki sitja að ríkisstyrknum. Hvers vegna mátti ekki bjóða þessa þjónustu út?

Deila sérfræðilækna við Tryggingastofnun ríkisins um þessar mundir minnir okkur enn einu sinni á að þegar ríkið hefur tekið að sér að skammta fé til stórra málaflokka verður skömmtunin yfirleitt líkari því sem sterkustu sérhagsmunahóparnir vilja fremur en einstaklingarnir í þjóðfélaginu hafa áhuga á. Þá fá landbúnaður og flug til Raufarhafnar skammtað ríkulega á meðan menntun og  heilbrigðismál fá minna en flestir hafa hug á. Eina leiðin til að fé fari í það sem almenningur vill að það fari í er að skattgreiðendur haldi fleiri krónum af sjálfsaflafé sínu en nú er. Til þess þarf ríkið auðvitað að draga sig í hlé á flestum sviðum, hvort sem um landbúnað, flug til Raufarhafnar, mennta- eða heilbrigðismál er að ræða.

Elsa B. Valsdóttir les pistla sína annan hvern þriðjudagsmorgun  á Rás 2. Hér má finna alla pistlana hingað til en í tveimur síðustu pistlunum fjallaði hún um vinstritilhneigingar hinna svonefndu öfga-hægrimanna og aukakíló ríkisins.