Deila sérfræðilækna við Tryggingastofnun ríkisins um þessar mundir minnir okkur enn einu sinni á að þegar ríkið hefur tekið að sér að skammta fé til stórra málaflokka verður skömmtunin yfirleitt líkari því sem sterkustu sérhagsmunahóparnir vilja fremur en einstaklingarnir í þjóðfélaginu hafa áhuga á. Þá fá landbúnaður og flug til Raufarhafnar skammtað ríkulega á meðan menntun og heilbrigðismál fá minna en flestir hafa hug á. Eina leiðin til að fé fari í það sem almenningur vill að það fari í er að skattgreiðendur haldi fleiri krónum af sjálfsaflafé sínu en nú er. Til þess þarf ríkið auðvitað að draga sig í hlé á flestum sviðum, hvort sem um landbúnað, flug til Raufarhafnar, mennta- eða heilbrigðismál er að ræða.
Elsa B. Valsdóttir les pistla sína annan hvern þriðjudagsmorgun á Rás 2. Hér má finna alla pistlana hingað til en í tveimur síðustu pistlunum fjallaði hún um vinstritilhneigingar hinna svonefndu öfga-hægrimanna og aukakíló ríkisins.