Mánudagur 12. janúar 1998

12. tbl. 2. árg.

Nokkur umræða hefur farið fram um þá hugmynd forsætisráðherra að stofna embætti umboðsmanns skattgreiðenda. Hugmynd forsætisráðherra miðaði einkum að því að bæta stöðu skattgreiðenda gagnvart skattkerfinu og starfsmönnum þess. Ef til vill kann þó að vera hægt að ná þessu markmiði án þess að setja nýja ríkissofnun á legg sem þessir sömu skattgreiðendur og hún á að vernda þyrftu að greiða fyrir. Einfaldlega með því að einfalda skattkerfið og lækka skatta.  Þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp fyrir um áratug var talað um að meginkostur hins nýja kerfis yrði einfaldleiki þess og hve lítið væri um undanþágur. Síðan hafa menn nær látlaust verið að bæta við flækjum af ýmsu tagi til að koma til móts við kröfur ýmissa hópa. Þótt undanfarin nokkur ár hafi greinilega verið skilningur á því að vísasta leiðin til að gera alla óánægða er að fallast á kröfur allra sérhagsmunahópanna.

Ef virðisaukaskattur væri án undanþága, sá sami fyrir alla og lægri en hann er í dag myndu skattskil vafalaust batna og árekstrum skattgreiðenda og skattkerfis vafalaust fækka. Hið sama má segja um tekjuskattskerfið. Það er orðin meiriháttar listgrein að haga tekjum þannig að hámarksútkoma fáist eftir að skattar hafa verið greiddir og tekið hefur verið tillit til vaxtabóta, endurgreiðslu námslána, barnabóta og barnabótauka.  Samanlögð áhrif virðisaukaskattsins (20% af útseldri vinnu) og tekjuskattsins (allt að 45% af því sem eftir stendur) á útselda vinnu geta verið um 55% og þá á eftir að taka tillit til þess að menn tapa bótum og þurfa að greiða hærri afborganir af námslánum við auknar tekjur. Þeir sem stunda atvinnurekstur í eigin nafni standa því frammi fyrir slíkri freistingu til undanskota að sú freisting er aðeins til að falla fyrir.
Ríkiskerfi valda oft vanda. Það er alltof oft tilhneiging til að leysa þennan vanda með því að bæta nýjum stofnunum við þær sem fyrir eru í stað þess að minnka kerfin og minnka þar með vandann.

Náttfari kom út í gær og fagnaði M&M deginum auðvitað og Ómar Ragnarsson fór á slóðir hans. í ríkisimbanum. Náttfari vakti líka athygli á grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær þar sem hræðsluáróðri umhverfisverndarsinna eru gerð prýðileg skil. Þesssa grein ætti enginn að láta fram hjá sér fara.  Björn Bjarnason vekur sérstaka athygli á þessari grein, sem upphaflega birtist í The Economist um áramótin, í pistli á heimasíðu sinni. Í framhaldi af því segir Björn: „Sósíalistar eru gjarnan með stórslys á vörunum og nota spár um þau til að réttlæta forsjárhyggju og hvers kyns afskipti af einkahögum manna. Má til dæmis minnast deilnanna um kjarnorkuvopnin frá því fyrir tveimur áratugum, þegar látið var í veðri vaka, að yrðu settar upp meðaldrægar bandarískar kjarnaflaugar í Evrópu til mótvægis við hinar sovésku og yrði Ronald Reagan kjörinn forseti Bandaríkjanna væri næsta víst, að til kjarnorkustyrjaldar kæmi og síðan heimsslita. Ekkert af þessu gekk eftir. Umræðurnar höfðu hins vegar þau áhrif á suma námsmenn, að þeir sáu ekki ástæðu til að halda áfram háskólanámi, því að það tæki því ekki vegna yfirvofandi heimsendis og má vísa til Stúdentablaðsins til að finna þessum orðum stað. Við skulum vona, að spár um Ísland sem íshellu verði ekki til þess að draga úr námsáhuga barna, sem nú sitja í íslenskum skólum.“