Helgarsprokið 11. janúar 1998

11. tbl. 2. árg.

STEF hefur að undanförnu verið að herða mjög aðgerðir sínar til að innheimta gjöld af fyrirtækjum, þar sem leikin er tónlist sem nýtur verndar höfundaréttar. Nú eru líklega flestir sammála um að höfundar hugverka á borð við tónlist, sem og flytjendur, eigi rétt á því að fá með einum eða öðrum hætti greitt fyrir notkun og flutning á þessum hugverkum. Hins vegar er margt sem bendir til þess að forsvarsmenn STEFs séu að ganga helst til langt í innheimtuhörku sinni um þessar mundir.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur nú nýlega dæmt bílaumboð til að greiða STEFi og Sambandi flytjenda og hljómplötuframleiðenda (SFH) gjald vegna þess að í húsakynnum fyrirtækisins, sem að sjálfsögðu eru opin almenningi, var kveikt á útvarpi og tónlist heyrðist þar leikin. Áður hafa bílasala og hárgreiðslustofa fengið sams konar dóma. Dómurinn byggir á því, að þessi fyrirtæki séu opin almenningi og „tónlistarflutningur“ þar sé því opinber flutningur, sem greiða beri rétthöfum fyrir.

Hér er um mjög sérkennilega reglu að ræða, því að útvarpsstöðvarnar sem flytja tónlistina eru þegar búnar að greiða rétthöfum fyrir að flytja þessa tónlist og má því segja að rétthafar fái tvisvar borgað fyrir sama flutninginn. Þá er til þess að líta, að þau þjónustufyrirtæki og verslanir sem hafa útvarpstæki í gangi eru ekki beinlínis að hagnast á því, þar sem þau selja ekki kúnnunum aðgang að húsnæði sínu til að þeir geti hlustað á útvarp. Í raun er ekki hægt að sjá að neinn munur sé á því að tíu manns hlusti á útvarp t.d. í sýningarsal bifreiðaumboðs, og því að þessir sömu tíu einstaklingar hlusti hver í sínu lagi á sömu útvarpsstöðina á heimilum sínum. Þá virðist óeðlilegt að telja það opinberan flutning á tónlist að hafa kveikt á útvarpsstöð inni á bensínstöð eða í verslun af þeirri ástæðu einni að kúnninn gæti heyrt í útvarpinu!

Svo virðist, sem tónskáld og flytjendur tónlistar hafi náð að tryggja rétt sinn afar vel. Hugsanlega of vel. Lagaheimildir þeirra til innheimtu eru afar rúmar og gjaldskrár þeirra, sem staðfestar eru af menntamálaráðherra, byggja einhliða á þeirra hagsmunum og önnur sjónarmið virðast ekki fá að komast að. Það er því ástæða að endurskoða lög og reglur á þessu sviði, þannig að eðlilegra jafnvægi skapist milli rétthafa höfundarréttarins og annarra aðila, sem hagsmuna hafa að gæta.