Í gær gat mörlandinn fagnað. Í fyrsta sinn í langan tíma mátti hann kaupa M&M gotterí á Íslandi. Nema að vísu ef hann hafði haft efni á að fara utan, þá hafði hann getað keypt pillurnar í fríhöfn ríkisins. Ástæðan fyrir því að M&M hafði ekki verið til annars staðar? Jú, ríkið taldi þessar sælgætispillur óhollar nema ef þær voru keyptar í verslun ríkisins. Nú hefur ríkið hins vegar áttað sig á því að óhætt er að leyfa Íslendingum að borða M&M sem keypt er í einkareknum íslenskum verslunum og því hefur listi bannefna verið samræmdur við lista annarra Evrópuþjóða.
Þetta leiðir hugann að öðru sem ríkið álítur hollara komi það úr verslunum þess en annarra, þ.e.a.s. áfengi. Vodki frá ÁTVR er hollari en vodki sem seldur væri hjá kaupmanninum á horninu. Og rauðvín frá Hagkaupum væri stórvarasamt á meðan sambærileg vara er bráðholl sé hún keypt í ÁTVR.
Það er sífellt að koma betur og betur í ljós með hvílíkum ólíkindum málsmeðferð R-listans í svokölluðu Geldinganesmáli hefur verið. Áður hefur verið greint frá því hér í Vef-Þjóðviljanum að framkvæmdir voru hafnar við grjótnám á svæðinu áður en slíkt var samþykkt í borgarstjórn. Á borgarstjórnarfundi 18. desember var tillaga um grjótnámið felld á jöfnu þar sem einn fulltrúi R-listans sat hjá og sjálfstæðismenn greiddu atkvæði á móti. Brást borgarstjóri við með þeim hætti að halda sérstakan aukafund um málið og afgreiða það að nýju að fyrrgreindum R-listafulltrúa fjarstöddum. Eins og bent hefur verið á eru stjórnarhættir af þessu tagi ekki til marks um mikla virðingu fyrir leikreglum lýðræðisins og má í því sambandi benda á til hliðsjónar, að í þingsköpum Alþingis er skýrt kveðið á um að þegar frumvarp hefur verið fellt á þingi megi ekki taka það fyrir að nýju fyrr en á næsta þingi þar á eftir (samanber 43. gr. þingskaparlaga nr. 55/1991).
Í þessu máli vekur sérstaka athygli hversu litla umfjöllun málið hefur hlotið í fjölmiðlum. Morgunblaðið birtir reyndar allítarlega grein um málið nú á miðvikudag, tæpri viku eftir síðari borgarstjórnarfundinn, en að öðru leyti hefur það ekki fengið eðlilega athygli í fréttum. Er engu líkara en á ýmsum öðrum áhrifamiklum fjölmiðlum sé hreinlega lítill áhugi á því að segja fréttir sem koma R-listanum eða Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur illa!