Vinnuveitendasamband Íslands hefur oft barist fyrir auknu frelsi. Nú virðist hins vegar einhver breyting þar á. A.m.k. ef marka má nýjasta fréttabréf sambandsins, Af vettvangi. Þar er m.a reynt að verja að VSÍ hefur tekið höndum saman við verkalýðshreyfinguna um að skylda launafólk til að greiða í lífeyrissjóð. Hvaðan VSÍ og ASÍ telja sig fá þetta guðdómlega vald til að ráðskast með 10% þeirra launa sem fólk vinnur sér inn er ekki gott að segja. En ASÍ og VSÍ vilja ekki aðeins skylda menn til að greiða í einhvern sjóð heldur verða menn að greiða í þá tilteknu sjóði sem fulltrúar þessara apparata stjórna en almennir sjóðsfélagar koma hvergi nærri stjórnuninni. Í fréttabréfinu er því haldið fram að skylduaðildin komi í veg fyrri aukna skattheimtu. En hver er munurinn á skylduaðildinni og venjulegri skattheimtu? Við því eru engin svör í fréttbréfinu enda er munurinn enginn.
Í fréttabréfinu er því einnig haldið fram að skylduaðildin komi í veg fyrir að óforsjálir einstaklingar lendi á framfæri samferðamanna sinna á efri árum. Það er líklega rétt að ef forsjárhyggja ASÍ og VSÍ nær fram að ganga þá mun fólk ekki þurfa að taka neinar ákvarðanir í lífinu og einstaklingum verður hvorki liðið að gera glappaskot né taka snjallar ákvarðanir um framtíð sína. Næst munu ASÍ og VSÍ vafalaust gera kröfu um að menn verji ákveðnum hluta launa sinna til kaupa á húsnæði enda má sá möguleiki varla vera fyrir hendi að menn séu á götunni á efri árum og við hin getum þurft að hlaupa undir bagga. Og til að gæta samræmis í forsjárhyggjunni mun VASÍ sjálfsagt vasast í því hvaða húsnæði menn kaupa. Að einu ætti VASÍ þó að huga og það er sá möguleiki að einhverjir ellilífeyrisþegar eyði aurunum sem þeir fá úr skyldusjóðunum í tóma vitleysu og við hin verðum að rétta þeim hjálparhönd. Er því ekki rétt að VASÍ taki til hliðar fé úr lífeyrissjóðunum og láti lífeyrisþega í staðinn hafa úttektarmiða í verslunum fyrir helstu nauðþurftum?
Prófkjör eiga sér alltaf skondnar hliðar og hið furðulega prófkjör R-listans, sem fram fer síðar í þessum mánuði, er þar engin undantekning. Frambjóðendur eru byrjaðir að senda frá sér lofgjarðir um eigið ágæti ásamt (innantómum) slagorðum. Hrannar B. Arnarsson, fyrrverandi Allaballi og núverandi óflokksbundinn alþýðuflokksmaður, er einn hinna ungu í prófkjörinu. Hann hefur sent frá sér póstkort þar sem hann stendur framan á í hlutverki kennarans og vill „nýja hugsun í skólamálum,“ „virkara lýðræði“ og „samfylkingu til sigurs.“
Gamall félagi Hrannars úr Alþýðubandalaginu, Helgi Hjörvar, sýnir gamla flokknum hollustu og fer fram fyrir hans hönd. Stundum þykja menn leggjast lágt til að koma sér á framfæri í kosningaslag, en þess í stað kýs Helgi að leggjast til sunds í Nauthólsvík fyrir framan myndavélar Dagsljóss. Í ævafornum sundsamfestingi dembir ungi baráttujaxlinn sér í ískalt Atlantshafið, allt fyrir frægðina. VÞ óskar Helga til hamingju, baráttan er rétt að byrja og þó virðist hann búinn að tryggja sér titilinn „örvæntingarfyllsti frambjóðandinn.“
Vefritið Náttfari kom út í dag. Þar er mælt gegn hnefaleikum, en jafnframt gegn banni þeirra eins og frjálslyndu riti sæmir. Einnig er mælt gegn reykingabanni á veitingastöðum, vitnað í Thatcher um einkavæðingu veitustofnana auk annars efnis.