Fimmtudagur 15. janúar 1998

15. tbl. 2. árg.

Síðastliðinn sunnudag ritaði Nóbelsverðlaunahafinn Milton Friedman grein í New York Times um fíkniefnabannið. Í greininni heldur Friedman því fram að bann við notkun fíkniefna sé ekki siðferðilega réttlætanlegt. Máli sínu til stuðnings nefnir hann m.a. að föngum hafi fjölgað áttfalt frá 1970 (um það leyti hófst „stríð“ yfirvalda við fíkniefni), bannið bitni sérstaklega á blökkumönnum því hlutfall svartra í fangelsi af svörtum íbúum sé mjög hátt og að neytendurnir séu hart leiknir, t.d. vegna þess að þeir fái verri vöru en ella (sem getur verið banvænt) og deili stundum nálum með öðrum og veikist þannig. Hann bendir líka á að hægt væri að lina krónískan verk mun frekar en nú er gert.  Samkvæmt skýrslum alríkisstofnunar nokkurrar um heilsufar fá tveir þriðju hlutar dauðvona krabbameinssjúklinga verri verkjalyfjagjöf en hægt væri án bannsins. Þetta á að hans sögn ekki síður við um þá sem ekki eru jafn langt leiddir.

Sjálfstæðismenn í Reykjavík gengu frá framboðslista sínum til borgarstjórnar í gærkveldi. Er hann í stórum dráttum í samræmi við niðurstöður prófkjörsins. Þessa dagana er  barátta fyrir hið svonefnda prófkjör R-listans að fara af stað. Einkum eru það ungu frambjóðendurnir sem komnir eru af stað með auglýsingar, bæklinga og greinaskrif. Einn þeirra, Hrannar B. Arnarson, hefur sett upp heimasíðu.  Almenn heimasíða fyrir prófkjör R-listans mun væntanleg á Netið um næstu helgi.