Föstudagur 2. janúar 1998

2. tbl. 2. árg.

Reykjavíkurborg mun á næstunni fella niður fasteignagjöld hjá þeim einstaklingum, sem búa í friðlýstum húsum í borginni. Samþykkt þar að lútandi var gerð í borgarráði með atkvæðum fulltrúa R-listans nú skömmu fyrir áramótin. Hér er um verulega umdeilanlega ákvörðun að ræða. Það er vissulega skemmtilegt fyrir borgarbraginn að gömlum húsum sé vel við haldið og jákvætt að skilningur á því hefur aukist á undanförnum árum. Hins vegar gengur ekki að borgaryfirvöld gangi þvert gegn jafnræðissjónarmiðum í skattamálum til að stuðla að slíkri þróun. Ef borgaryfirvöld telja að há fasteignagjöld komi sér illa fyrir þá sem búa í gömlum friðlýstum húsum ættu þau auðvitað að lækka þessi gjöld almennt. Þannig væri einnig hugað að hagsmunum þeirra fjölmörgu einstaklinga úti um allan bæ sem eru að sligast undir skattbyrði ríkis og borgar (og er með fasteignagjöldum sérstaklega refsað fyrir að búa rúmt).
Rótin að þessari mismunun er auðfundin, hún er auðvitað friðlýsingin. Það er vitaskuld fráleitt að hið opinbera taki sig til og friðlýsi eignir manna og leggi þar með hömlur á eignarréttinn.

Við gerum svo ekki ráð fyrir að þessi ákvörðun tengist á nokkurn hátt því að kosningar verða til borgarstjórnar eftir fimm mánuði….

Þótt skilningur manna á kostum markaðshagkerfisins hafi farið mjög vaxandi undanfarin ár eru margir enn þeirrar skoðunar að ríkisvaldið eigi að setja nákvæmar reglur um hvernig fólk eigi að haga viðskiptum sínum. Fjármálamarkaðurinn hefur ekki farið varhluta af þessu og er því iðulega haldið fram að hann verði að vera undir ströngu eftirliti. Eitt af því sem valdið hefur sumum áhyggjum eru svokölluð afleiðuviðskipti, en þau urðu sérstaklega skotspónn eftir hið mikla tap Baring banka. Margar ranghugmyndir eru uppi um viðskipti af þessu tagi og þess vegna þykir ýmsum vafalaust fróðlegt að lesa skýrslu Cato stofnunarinnar frá síðasta hausti þar sem þær eru ræddar.