Fyrir fáeinum árum var aftur lagður skattur á bækur, en þær höfðu verið undanþegnar skatti frá því breytt var úr söluskatti yfir í virðisaukaskatt. Skatturinn sem lagður var á þær er að vísu ekki 24,5% eins og á flestu öðru, heldur „einungis“ 14%. Þó kvörtuðu menn í bókageiranum sáran og töldu að nú væri ríkisvaldið að ganga af bókinni dauðri. Nú er hins vegar komið á daginn að þetta var óþarft upphlaup. Bóksala nýliðinnar jólavertíðar var 10% meiri en þeirrar síðustu og þó var sú vertíð með ágætum. Bækur þurftu því ekki á þeim stuðningi ríkisins að halda sem þær nutu áður í formi skattleysis.
Þá má spyrja hvort bækur eigi að vera í lægra skattþrepi. Eða ef til vill öllu heldur hvort til eigi að vera fleiri en eitt þrep. Svarið við þessu er að eðlilegast er að allar vörur og þjónusta njóti jafnræðis. Þar með er vitaskuld ekki verið að leggja til að skatturinn verði almennt hækkaður heldur að skatthlutfallið verði samræmt og lækkað. Hægt væri að lækka skattþrepið verulega ef allar undanþágur væru afnumdar. Lægra skattþrep þýddi líka betri skattskil og að öllu samanlögðu má gera ráð fyrir að ríkið þyrfti ekki að verða fyrir tekjutapi þótt skatthlutfallið yrði samræmt í 18-19%. En þar sem æskilegt er að ríkið verði fyrir tekjutapi og dragi saman seglin er vel hægt að lækka hlutfallið enn meira.
Um áramótin kom til framkvæmda skipting Pósts og síma hf. í Landssíma Íslands hf. og Íslandspóst hf. Ánægjulegt hefur verið að samgönguráðherra hefur á undanförnum mánuðum lýst því yfir, að hann telji brýna nauðsyn bera til þess að selja hlutabréf ríkisins í fyrirtækjunum, einkum þó Landssímanum. Yfirlýsingar formanns Framsóknarflokksins, utanríkisráðherra, um sama málefni eru hins vegar ekki eins jákvæðar. Hann segir í viðtali við Dag (sem margir kalla Tímann) þann 30. desember s.l. að allt tal um sölu hlutabréfa í Landssímanum sé fullkomlega ótímabært. Fram kemur að framsóknarmenn eigi eftir að ræða málið í þingflokki sínum og mikil vinna sé eftir áður en það komist á „ákvörðunarstig“. Formaður Framsóknarflokksins slær síðan úr og í um einkavæðingu fyrirtækisins og virðist hvorki vera mikið með henni né mikið á móti. Er það í samræmi við viðteknar venjur framsóknarmanna um málflutning í stórpólitískum málum.
Þrátt fyrir að ekki sé beinlínis hægt að túlka ummæli formannsins þannig að framsóknarmenn muni reyna að koma í veg fyrir sölu hlutabréfa í Landssímanum til einkaaðila, þá vekja þessi viðbrögð hans talsverðar áhyggjur. Í stað þess að styðja við bakið á þeirri stefnumörkun, sem samgönguráðherra hefur kynnt í málinu, er farið að tala um að skoða þurfi málið vandlega og taka sér góðan tíma áður en nokkrar frekari ákvarðanir verði teknar. Þetta er auðvitað gamalkunnug leið til að tefja mál og drepa þeim á dreif. Vonandi eru það ekki slíkar hugsanir sem búa að baki hjá formanninum heldur aðeins gamalkunnug varfærni og ákvarðanafælni framsóknarmannsins.