Fimmtudagur 1. janúar 1998

1. tbl. 2. árg.

Lestur áramótapistla forystumanna stjórnmálaflokkanna er mismikil skemmtun. Raunar yfirleitt engin. Til að spara lesendum sínum þann lestur lagðist Vef-Þjóðviljinn yfir pistla þeirra er birtust í Mogganum á gamlársdag og athugaði hvort þar væri eitthvað bitastætt.

Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins reið á vaðið og skrifar langt mál en segir ekkert sem kemur á óvart. Hann reynir greinilega að vera varfærinn og ábyrgur miðjumaður. Tekur helst ekki afstöðu og kemst því frá þessu án þess að segja margt sem er sérstaklega gagnrýni- eða hrósvert. VÞ hnaut helst um það að hann telur að lengra verði gengið í takmörkun framsals aflaheimilda „jafnvel þótt það geti dregið úr möguleikum á hagræðingu í einstaka tilfellum,“ eins og hann kemst að orði. Hann segir ekki beinlínis að það sé hans skoðun að þetta skuli gert (sbr. það sem fram kemur hér að ofan um afstöðuleysi hans) en þó hljóta menn að ætla að svo sé. En hvort sem svo er eða ekki er þetta ákaflega furðulegt. Að ætla að takmarka framsal þótt vitað sé að slíkt er óhagkvæmt er sjónarmið sem vægast sagt er erfitt að átta sig á.

Jóhanna Sigurðardóttir formaður Þjóðvaka (!) fékk að vera með í Mogganum þótt flestir hafi sjálfsagt haldið að sá flokkur væru fyrir löngu úr sögunni. Líkt og aðrir talsmenn stjórnarandstöðunnar heldur hún fram órökstuddum hræðsluáróðri í umhverfismálum og vill að Íslendingar taki á sig kjaraskerðingar vegna einhvers sem hún heldur að gæti ef til vill hugsanlega kannske gerst. Hún er kotroskin og segir Þjóðvaka (sem er með 0,2% fylgi) hafa lýst því yfir að hann hyggist taka þátt í sameiginlegu vinstra framboði. Vitaskuld vilja þingmenn Þjóðvaka það, því án fylgis annarra kæmust þeir ekki á þing.

Guðný Guðbjörnsdóttir formaður þingflokks Samtaka um kvennalista (þ.e.a.s. leiðtogi Kristínar Halldórsdóttur) fékk líka að vera með þótt flokkurinn hennar sé endanlega að hverfa eftir langt og erfitt dauðastríð. Hún vill, eins og aðrir sem sjá að þeir eru að þurrkast út, fara í sameiginlegt framboð sem „yrði væntanlega undir merkjum kvenfrelsis, jafnaðar og félagshyggju“. VÞ veit ekki frekar en Guðný undir hvaða merkjum þetta framboð yrði, en getur sér þess til að það yrðu frekar merki valdapots, óráðsíu og stjórnlyndis sem stæðu upp úr. Á hugmyndum hennar í fiskveiðistjórnarmálum er engan veginn byggjandi enda virðist hún ekki vita hvað hún vill þar. Þó ef til vill „byggðakvóta af einhverju tagi,“ eins og hún orðar það og þá líklega með einhverju „vistvænu“ ívafi, því orðið „vistvænn“ þykir fínt í dag.

Sighvatur Björgvinsson formaður Alþýðuflokksins gerist eins og hinir stjórnarandstæðingarnir talsmaður kjaraskerðingar vegna hugsanlegra umhverfisvandamála. Nú þarf að hans mati að „endurmeta“ áform um aukna iðnaðaruppbyggingu í landinu. (Þetta hefur eflaust glatt félaga hans, Jón Sigurðsson samflokksmann og fyrrum samráðherra töluvert.) Það kemur ekki á óvart að hann er talsmaður sameiningar vinstri manna og auðlindaskatts, en á óvart kemur að söngurinn um að við verðum að drífa okkur í ESB er ekki sunginn að þessu sinni. Það kann að hafa gleymst, en þó kann einnig að vera að þetta sé til marks um að Alþýðuflokkurinn ætli að gefa þetta helsta baráttumál sitt eftir fyrir að komast í eina sæng með hinum vinstri flokksbrotunum.

Margrét Frímannsdóttir formaður Alþýðubandalagsins er andstæðingur stóriðju og kemur slíkt ekki á óvart frá þeim flokki, því hann hefur í gegnum tíðina verið á móti öflugu atvinnulífi, hvort sem þar er um að ræða stóriðju eða annað. „Tilrauninni með kvótakerfið sem hófst fyrir tæpum fjórtán árum verður að fara að ljúka,“ segir Margrét og sér kerfinu flest til foráttu. Þetta mun varla gleðja keppinaut hennar Steingrím J. Sigfússon, sem hefur hingað til haft næga skynsemi til að styðja kerfið, en þess má geta að kerfið hefur aukið framleiðni í sjávarútvegi um tugi prósenta og er að auki talið hafa eflt fiskistofnana. En formann Alþýðubandalagsins varðar vitaskuld ekkert um slíkt.
Ef einhver hélt að Allaballarnir væru hættir að berjast fyrir varnarleysi landsins er það misskilningur. Varnarliðið skal á brott og NATO lagt niður fái þeir nokkru ráðið. NATO er úrelt að þeirra mati og einhver önnur stofnun á að taka við hlutverki þess þegar öryggismál hafa verið hugsuð upp á nýtt. Sá sem treystir Alþýðubandalaginu fyrir öryggismálum landsins er víst vandfundinn og þessar vangaveltur formannsins munu litlu breyta þar um.

Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins ritar einnig kveðju til landsmanna um áramót en þar kveður við nokkuð annan tón en hjá hinum formönnunum. Eins og fram kom hér að ofan er það helst Halldór sem ekki veður tóman reyk í málflutningi sínum, en skrif Davíðs eru þó þau einu sem ná að gleðja lesandann við og við. Ekki vegna þess að hann fari með gamanmál eins og í nýlegu smásagnasafni, heldur vegna þess að þau sýna töluverðan skilning á því hverju þarf að breyta og jafnvel hvernig.
Að mati VÞ ofmetur forsætisráðherra að vísu hversu „varfærin fjármálastjórnin“ hefur verið, eins og oft kom fram í pistlum hér síðasta árið. Enn er eytt í marga vitleysuna og útgjöld aukin víða, en Davíð sýnir þó, ólíkt stjórnarandstöðunni, að hann hefur skilning á því að útgjöld verði að hemja og að sporna verði við endalausum kröfum um aukin útgjöld. Það er með ólíkindum þegar umsvif ríkisins eru svo mikil sem hér, að það sé leiðtogi stjórnarinnar, en ekki stjórnarandstöðunnar, sem hefur áhyggjur af útgjöldum ríkisins og vissulega umhugsunarefni bæði fyrir stjórnarandstöðuna og landsmenn alla.
Davíð er eini formaðurinn sem bendir á að hræðsluáróður sumra umhverfisverndarsinna sé „hæpinn svo ekki sé fastar að orði kveðið.“ Vissulega mættu fleiri stjórnmálamenn hafa kjark til að standa gegn órökstuddum áróðrinum, en flestum finnst þægilegra að fljóta með straumnum.
Davíð talar um aukinn skilning á nauðsyn markaðsbúskapar og að orð eins og einkavæðing séu ekki lengur á bannlista, þótt „menn vilji misjafnlega hratt ganga.“ Eitt helsta vandamálið við núverandi ríkisstjórn hefur einmitt verið hægagangur við einkavæðingu, eins og bent var á hér í VÞ síðastliðinn sunnudag. Hægagangurinn hefur raunar verið með ólíkindum og er óhætt að segja að frjálslyndir menn hafi orðið fyrir verulegum vonbrigðum. Ef skilningsleysi forystumanna ríkisstjórnarinnar er ekki um að kenna er örðugt að sjá hvað veldur, a.m.k. skortir ekkert á þingmeirihluta stjórnarflokkanna. Á þessu ári hlýtur ríkisstjórnin að taka stór skref í einkavæðingarmálum ætli hún að standa undir væntingum sem gerðar eru til hennar um samdrátt ríkisrekstrarins.

Vef-Þjóðviljinn lítur bjartsýnum augum til ársins sem framundan er. Miklir möguleikar eru fyrir hendi ef forystumenn hins opinbera hafa bæði skilning og getu til að draga úr umsvifum þess. Þar verður að hafa sérstaklega í huga að nota ekki góðærið til að auka útgjöldin heldur til að greiða skuldir og hætta þeim verkefnum sem óþörf eru. VÞ mun á þessu ári eins og því síðasta tala máli einstaklingsfrelsis og beita sér gegn ofþenslu hins opinbera.

Vef-Þjóðviljinn óskar lesendum sínum gleðilegs árs