Miðvikudagur 31. desember 1997

365. tbl. 1. árg.
ÁRAMÓTAÚTGÁFA

Vef-Þjóðviljanum þykir tilhlýðilegt um áramót að minnast þeirra atburða, manna og fyrirbæra sem skarað hafa fram úr á árinu. Hér að neðan er eitt og annað sem ekki má verða gleymskunni að bráð:

Sorptæknar ársins: Furðufólkið sem þefaði uppi Vikartind nánast áður en hann var lentur og stal öllu steini léttara.

Áfall ársins: Steingrímur Hermannsson er að hætta í Seðlabankanum. Hlutabréf í hótelkeðjum víða um heim hafa hrapað í verði.

Þingflokkur ársins: Án vafa þingflokkur Kvennalistans. „Lengi getur smátt smækkað“.      

Greiðasemi ársins: Árni Johnsen, frumflutti svítuna sína þar sem enginn heyrði til. 

Flosi Fífldal ársins: Árni Sigfússon, fyrir góðan árangur í tryggingasölu.

Flokksmaður ársins: Hjörleifur Guttormsson, eini flokksbundni 
Alþýðubandalagsmaðurinn sem þorir að segjast vilja halda lífi í flokknum.

Hanabjálki ársins: DV húsið, þar sem „mesti vindhani íslenskra stjórnmála“ hefur hafið störf, frjáls og óháður.

Eftirsjá ársins: Hallvarður Einvarðsson sest í helgan stein við Elliðavatn.

Tölva ársins: Tölva Reiknistofu bankanna, brennur yfir um hver mánaðamót.

Stjórnarformaður ársins: Stjórnarformaður Pósts og síma hf., sem leit á formennsku sína sem eins konar hobbý.

Blóðugasti bardagi ársins: Baráttan um áttunda sæti R-listans. Þátttaka
öllum heimil sem heita Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og eiga afmæli í dag.

Frambjóðandi ársins: Helgi Pétursson, framsóknarmaður til 40 ára, fulltrúi Alþýðuflokksins í „prófkjöri“ R-listans.

Furðuverk ársins: Prófkjörsreglurnar sem Ingibjörg Sólrún ákvað fyrir R-listaflokkana.
 

Fréttaskýrandi ársins: Marteinn Mosdal, að minnsta kosti skárri en hinir.

Dýrasta tedrykkja ársins: Kyoto ráðstefnan.

Ofleikari ársins: Ólafur Ragnar Grímsson. 

Íslendingur ársins: Bjarni Tryggvason, kanadískur geimfari.

Spaugstofa ársins: Fóstbræður.

Fýluferð ársins: Þrír menn príluðu 8000 metra upp á fjall, reyndust ekki eiga neitt erindi og fóru niður eftir hálftíma.

Hótun ársins: Hljóðfæraleikurum Sinfóníunnar varð kalt á æfingu og hótuðu uppsögn.

Þingmaður ársins: Ragnheiður Ásta Stefánsdóttir, fyrsti þingmaður Halldórs Blöndals. 

Óþarfi ársins: Að geta ekki beðið fram yfir jól með að troða Franklin inn. 

Niðurlæging ársins: Jólaleit yfirvalda að Franklin.

Hrós ársins: Lofsöngur Baldurs Hermannssonar um Árna Björnsson, „sjálfskipaðan jólasveinafræðing“, í grein í Morgunblaðinu en þar seildist Baldur í „birkihrísluna góðu“ og gældi við Árna.

Hlutabréfakaup ársins: Kaup Ágústs Einarssonar á milljónahlut í Degi-Tímanum. 

Viðtal ársins: Glæsiviðtal Dags-Tímans við Ágúst Einarsson alþingismann skömmu síðar.

Grís ársins: Það er nú augljóst …

Trúnaðarmaður ársins: Esra S. Pétursson, sálkönnuður.

Vanhæfust á árinu: Elín Hirst, fyrir að vera gift manni er starfaði um tíma í Sjálfstæðisflokknum.

Hæfastur á árinu: Helgi H. Jónsson, fyrrverandi frambjóðandi Framsóknarflokksins og eiginmaður borgarritara R-listans.

Kona ársins: Gunnar Dal, vitringur.

Heilaþvottartilraun ársins: Markús Möller, Hannes Hólmsteinn Gissurarson
og leiðarahöfundar Moggans, skrifuðu samtals 384 greinar um auðlindaskatt á árinu.

Alt-muligt-mand ársins: Baltasar Kormákur Baltasarsson.

Björn ársins: Björn Bjarnason, Bjössi, netverji íslenskra stjórnmála.

Meinloka ársins: Samtök um þjóðareign.

Jólasveinn ársins: Ástþór Magnússon, sá eini þeirra sem gaf Saddam í skóinn.

Söngkona ársins: Guðný Guðbjörnsdóttir, eins og áhorfendur Á elleftu stundu fengu að reyna.

Óvæntasta útspil ársins: Morgunblaðið reyndist styðja auðlindaskatt á árinu.

Framsóknarmaður ársins: Ólafur Örn Haraldsson. Þeir ættu allir að vera á Suðurskautslandinu. 

Kommi ársins: Margrét Frímannsdóttir, fyrir að reyna að leggja Allaballana niður með góðu eða illu.

Kvennalistakona ársins: Þær eru það báðar.

Krati ársins: Hrafn Jökulsson, fyrrverandi ritstjóri Alþýðublaðsins.

Sjálfstæðismaður ársins: Hrafn Jökulsson, varaþingmaður Alþýðuflokksins.

Fjölmiðill ársins, Vef-Þjóðviljinn, frjáls og Össurarlaus þakkar lesendum sínum samfylgdina á árinu.