Þriðjudagur 30. desember 1997

364. tbl. 1. árg.

Kröfur um bætta menntun heyrast æði oft hér á landi. Oft er talað um að við verðum að vera í fararbroddi þegar menntun er annars vegar, slíkt sé sérstök nauðsyn á tímum örra tækniframfara. Ekki skal um þetta deilt, en eðlilegt er að fólk skuli hafa áhyggjur af því að þetta markmið sé í hættu, því yfirleitt þegar skólamál ber á góma í opinberri umræðu er það vegna kjara kennara en ekki menntunarinnar sjálfrar. Engar hugmyndir eru uppi á borðinu sem líklegar eru til að breyta nokkru um þetta. Færsla grunnskólans til sveitarfélaganna mun til að mynda ekki valda straumhvörfum í menntun.

Ein hugmynd sem allt of lítið hefur verið skoðuð hér á landi er að aðskilja greiðslu hins opinbera fyrir menntun annars vegar og menntunina sjálfa hins vegar. Það er að segja að hið opinbera greiði fyrir menntunina en sjái þó ekki beint um að mennta fólk. Þetta mætti gera með því að foreldrar fengju ávísun frá hinu opinbera sem væri eingöngu hægt að nota til að greiða fyrir menntun barna þeirra. Hvar menntunin væri keypt væri hins vegar eftirlátið foreldrunum að ákveða. Þetta gæti skapað raunverulegan grundvöll fyrir einkaskóla og samkeppni þeirra á milli um bætta menntun og betri nýtingu fjármuna. Niðurstaðan gæti orðið betri menntun barnanna og bætt kjör kennaranna, sem væru margir eða jafnvel flestir orðnir meðeigendur skólanna enda sérfræðingar í skólamálum.

Þótt umræða um slíkar hugmyndir sé lítilfjörleg hér á landi og yfirleitt sé spurt um það eitt hvernig auka megi útgjöld til þessa málaflokks má finna frjóar umræður um þetta mál á netinu. Í skýrslunni Vouchers and Educational Freedom: A Debate, sem Cato stofnunin gefur út, takast á tvö mismunandi viðhorf um slíkt kerfi.

Formaður fyrrum kommúnistaflokks Ítalíu, Massimo D’Alema, segir frá því í viðtali við Financial Times á dögunum að flokkurinn hyggist á næstunni skipta út merki sínu, hamrinum og sigðinni, og taka í staðinn upp merki svokallaðra jafnaðarmanna, rósina rauðu. Hann fjallar ófeiminn um það að verið sé að breyta ímynd flokksins og gera hann kosningavænni. Þetta er hið sama og verið hefur að gerast um alla Evrópu og Íslendingar hafa ekki farið varhluta af því. Menn kannast við flótta Alþýðubandalagsins frá uppruna sínum (Kommúnistaflokkur, Sósíalistaflokkur …) og þrálátum en innihaldslausum sameiningarumræðum vinstri manna. Allt snýst þetta um hið sama og á Ítalíu og víðar, þ.e. að ná völdum og komast að kjötkötlum. Málefni, skoðanir -hvað þá hugsjónir – skipta engu í þessum alþjóðlega grímudansleik vinstri manna.