Mánudagur 29. desember 1997

363. tbl. 1. árg.

Undanfarna daga hefur nýleg ævisaga íslensks læknis, Esra Péturssonar, sætt mikilli umræðu. Fullyrt er, að í bókinni greini Esra þessi frá atriðum sem undirorpin séu trúnaðarskyldu læknis við sjúkling sinn. Nú skal hér ekkert fullyrt um hvað það er sem knýr skrásetjara bókarinnar, svokallaðan Ingólf Margeirsson, áfram. Og í sjálfu sér má það einu gilda. Hitt er annað mál, að viðbrögð hans við þessum ásökunum eru honum lítt til álitsauka. Hann tekur upp á því að tala sem mest um tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og í umvöndunartóni sakar hann þá, er gert hafa alvarlegar athugasemdir við frásagnir Esra, um að vilja standa fyrir „bókabrennum“. Hér er með alvarlegum hætti reynt að leiða fólk afvega. Mál þetta snýst alls ekki um „tjáningarfrelsi“. Kjarni þess er, að þeir sem hafa tekið á sig þagnarskyldu viðvíkjandi einhverju máli, hafa ekkert „tjáningarfrelsi“ í því máli. Menn verða skilyrðislaust að geta treyst því, að þeir sem heiti trúnaði, standi við það heit. Orð Ingólfs þýða það eitt, að þó hann heiti því hátíðlega að halda trúnað um einhver atriði, þá telur hann sér samt heimilt að gefa þau út á bók. Hann myndi einfaldlega tala um „tjáningarfrelsi“ og „bókabrennur“ og gefa svo hvað út sem honum sýndist.

Nú hefur Vef-Þjóðviljinn ekki lesið þessa umræddu bók og tekur því ekki afstöðu til hennar sem slíkrar. Hér verður því einu haldið fram, að hafi Esra rofið trúnað við skjólstæðing sinn, fái tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrár ekki bætt málstað hans.

Og svo almennt sé talað um bersöglisbækur – og enn ítrekar VÞ að hann leggur engan dóm á ævisögu þessa Esra – þá er ljóst að eitt og aðeins eitt mun ráða því hvort slíkar bækur verða gefnar út eða ekki. Það er það hvort fólk kaupir þær til gjafa eða ekki. Og hvort þeir, sem fá þær að gjöf, halda þeim eða skipta þeim.

Reykingar á börum verða bannaðar í Kaliforníu frá og með næstu áramótum. Þá geta menn hvergi reykt nema heima hjá sér og verður eftir það tæplega lengra gengið í að þrengja að reykingarmönnum. En er ástæða til ganga svo langt í að verja réttindi þeirra sem ekki vilja finna reykjarlykt eða hugsanlega hætta heilsunni með óbeinum reykingum? Eru reykingamenn kannske réttlausir með öllu og reykingar svo fyrir neðan allt velsæmi að einskis skuli látið ófreistað til að losa heiminn við þessa pest? Eru sígarettur nánast eins og sýklavopn? Nei, varla. Ætli ofstopinn sé ekki orðinn allnokkur þegar hið opinbera er farið að setja reglur um reykingar á krám. Skyldi ekki vera eðlilegra að eigendur kránna settu reglurnar og fólk gerði svo sjálft upp við sig hvort það léti sig hafa að sitja í reyk eða ekki.