Helgarsprokið 28. desember 1997

362. tbl. 1. árg.

Framkvæmd einkavæðingar á þessu ári hefur valdið mörgum stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar sárum vonbrigðum. Í ársbyrjun var stefnt að því að ráðast í nokkur stórverkefni á þessu sviði, enda var í fjárlagafrumvarpi stjórnarinar boðað að selja ætti t.d. Áburðarverksmiðjuna og Sementsverksmiðjuna, auk þess sem ljúka ætti sölu hlutabréfa ríkisins í SKÝRR hf. Niðurstaðan var sú, að einungis var farið út í sölu á hlutabréfunum í SKÝRR auk bréfa í Bifreiðaskoðun Íslands hf. Samtals var söluandvirðið aðeins 171 milljón króna, sem er vægast sagt agnarsmá upphæð ef litið er til andvirðis þeirra stóru fyrirtækja, sem ríkið á enn að fullu. Nægir þar að nefna ríkisbankana, Póst og síma og orkufyrirtækin. Þetta verður því að teljast aumur árangur af einkavæðingarstarfi ársins.

Áhyggjur frjálslyndra manna minnka ekki ef litið er til þess að frá árinu 1993 hefur sífellt minna verið einkavætt frá ári til árs. Mest var selt af hlutabréfum ríkisins í fyrirtækjum á því ári, eða fyrir um 730 milljónir króna. Árið 1994 var upphæðin komin niður í 301 milljón, 204 milljónir árið 1995 og 202 árið 1996. Í ljósi þessara talna má spyrja hvort forystumenn ríkisstjórnarflokkanna hafi raunverulega áhuga á því að draga ríkið út úr atvinnurekstri, sem einstaklingar er betur færir um að sinna. Verk þeirra hingað til gefa a.m.k. ekki til kynna að þeir átti sig alveg á mikilvægi einkavæðingarinnar.

Til að gæta fullrar sanngirni er þó rétt að geta þess, að unnið hefur verið að undirbúningi nokkurra einkavæðingarverkefna, svo sem með formbreytingu ríkisfyrirtækja yfir í hlutafélög. Þannig tók Póstur og sími hf. til starfa um síðustu áramót og skiptist í tvö hlutafélög um þau næstu. Samgönguráðherra hefur jafnframt lýst því yfir að hefja eigi sölu hlutabréfa í símanum strax á næsta ári. Landsbanki og Búnaðarbanki breytast líka í hlutafélög um þessi áramót og hefur ríkisstjórnin lagaheimild til að hefja sölu hlutafjár í þeim, þó með miklum takmörkunum. Minni takmarkanir eru á sölu hlutabréfa í Fjárfestingabanka atvinnulífsins hf., en þar má þó ekki selja meira en 49% nema að breyttum lögum.

Af orðum forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar má skilja, að huga eigi alvarlega að þessum einkavæðingarverkefnum og fleirum á næsta ári. Alls gera fjárlög ráð fyrir því að seld verði hlutabréf fyrir rúmlega 6 milljarða króna og er ljóst að menn verða að nálgast verkefnin með allt öðrum hætti til að ná því marki heldur en hingað til hefur verið gert. Árangurinn í þessum efnum verður einn mikilvægast prófsteinninn á núverandi ríkisstjórn og mun ráða miklu um það hvort hún mun hljóta dóm í framtíðinni sem frjálslynd stjórn eða ríkisafskiptastjórn.