Laugardagur 27. desember 1997

361. tbl. 1. árg.

Vef-Þjóðviljinn bendir lesendum sínum á að taka öllum fréttum DV og Dags (sem flestir kalla Tímann) af borgarstjórnarframboði Sjálfstæðisflokksins með miklum fyrirvara. Þessi blöð hafa að undanförnu birt sömu fréttina um þetta efni dag eftir dag án þess að geta nokkurra heimilda og án þess að nokkur sem til þessara mála þekkir sé tilbúinn að ræða þau. VÞ vill í þessu sambandi benda lesendum á að hafa í huga, að Össur Skarphéðinsson, ritstjóri DV, er einn af helstu stuðningsmönnum R-listans, þingmaður Alþýðuflokksins og svili Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Stefán Jón Hafstein, ritstjóri Dags, á sæti í innsta herráði R-listans, sem hefur starfað sem nokkurs konar kosningastjórn hans. Þar er litið á hann sem sérstakan trúnaðarmann borgarstjóra. Spyrja má hvort fréttaflutningur blaða þessara manna að undanförnu sé eðlileg, málefnaleg fréttamennska, eða upphaf eiginlegrar kosningabaráttu R-listans.

Hinn svokallaði Eurofighter, orrustuflugvél nokkurra Evrópuríkja, virðist ætla að verða að veruleika eftir erfiða meðgöngu til fjölmargra ára. Áætlað er að þetta verkefni muni kosta lítilfjörlega fimm þúsund milljarða króna (kr. 5.000.000.000.000,-), upphæð sem enginn maður skilur en skattgreiðendur þessara Evrópuríkja fá að greiða. Nú er ekki verið að mæla gegn því hér að lýðræðisríki haldi uppi landvörnum, en hafa verður í huga að þar sem þær eru greiddar af skattfé ber að gæta ýtrustu ráðdeildar. Málavextir gefa hins vegar tilefni til að efast um að hagsmunir skattgreiðenda hafi verið hafðir í fyrirrúmi þegar ákvörðunin um þessa orrustuflugvél var tekin.

Verkefnið er öðrum þræði rökstutt með því að það „skapi atvinnu“ hér og þar í Evrópu, en slíkur rökstuðningur bendir ekki til þess að verkefnið eigi rétt á sér. „Atvinnuskapandi verkefni“ sóa fjármunum en minnka ekki atvinnuleysi. Annað sem bendir til að ekki sé verið að taka afstöðu til flugvélarinnar á réttum forsendum er hörð gagnrýni á getu hennar. Hún er sögð tæknilega úrelt og skorta mikið af þeim búnaði sem gera verður kröfu um í dag og vegna þessa munu hermenn vera farnir að kalla hana „tannlausa tígurinn“ sín á milli. Það lítur því út fyrir að þessi „tannlausi tígur“ verði enn eitt minnismerkið um afdrif óþekkta skattgreiðandans.