Föstudagur 26. desember 1997

360. tbl. 1. árg.

Jólaútgáfa The Economist er að vanda skemmtileg og jafnframt fróðleg lesning. Eins og blaðið bendir á geta brandarar sagt margt um þjóðir, rétt eins og hagtölur og önnur gögn. Þannig hafa ráðamenn þjóða þeim mun minna skopskyn sem lýðræði er af skornari skammti. Kim Jong Il í Norður-Kóreu er t.d. sá eini sem segja má brandara þar í landi, en þá er þó bót í máli að undirmenn hans segja hann „ómetanlegan meistara snjallra tilsvara“.
Forseti Kenyu, Daniel arap Moi, hefur ólíkt gleðigjafanum í Norður-Kóreu ekki stöðvað alla brandara um sig og þarf því t.d. að þola þennan:

Fátækur betlari situr við vegkant. Skyndilega bruna glæsilegir vagnar Daniels araps Mois framhjá. Skömmu síðar hleypur sveittur og tættur náungi framhjá honum með geit, sem er sýnilega stolin, undir handleggnum. Mínútu síðar koma tveir lögregluþjónar á sprettinum á eftir honum. „Sástu feitan þjóf koma þessa leið?“, spyrja þeir. „Já,“ svarar betlarinn, „en þið náið honum aldrei á tveimur jafnfljótum.“

Í Austur-Þýskalandi er ekki lengur hægt að grínast með biðraðamenningu sem hrjáði landsmenn í kalda stríðinu, en þess í stað er hægt að gera grín að muninum á Þjóðverjum eftir því hvort þeir búa í austur- eða vesturhluta Þýskalands, þ.e. „Ossies“ eða „Wessies“.:

Spurning: Hvernig veistu að Ossies geta ekki verið afkomendur apa?
Svar: Enginn api hefði komist af í 40 ár án banana.

En brandarar geta líka sagt töluvert um fleira en pólitík. Nú á tímum er t.d. ekki gert grín að þeim sem minna mega sín þótt slíkt hafi á árum áður þótt hið mesta spaug. Hvort ástæðan er breyttur smekkur almennings eða áhrif pólitísks rétttrúnaðar skal ósagt látið. Einhverra hluta vegna má heldur ekki gera grín að konum (ljóskur fá þó stundum að finna fyrir því). Öruggara er að hlæja að körlum:

Spurning: Hversu marga menn þarf til að veggfóðra herbergi?
Svar: Það fer eftir því hversu þunnt þú skerð þá.

Sumar starfsstéttir hafa líka þótt þess verðar að fá sinn skammt af „vingjarnlegu“ spéi. Lögmenn hafa þótt sérstaklega verðugir:

Spurning: Hvað kallarðu 100 lögmenn grafna upp að hálsi í sandi?
Svar: Ekki nægan sand.

Spurning: Hvað er brúnt og svart og lítur vel út á lögmanni?
Svar: Doberman.

Af hreinni ósanngirni við Bill Gates, sem aðstoðaði við að koma þessu til lesenda, fylgir hér ljósaperubrandari í lokin:

Spurning: Hversu marga Billa Gatesara þarf til að skipta um peru?
Svar 1: Engan. Hann setur peruna í og lætur heiminn snúast í kringum sig.
Svar 2: Engan. Hann boðar til fundar og gerir myrkur að staðli.