Fimmtudagur 25. desember 1997

359. tbl. 1. árg.

Ekkert er eins niðurdrepandi og að eiga enga von. Að finnast allt ómögulegt og sjá enga útleið er óneitanlega nöturleg tilfinning. Einkahagir manna geta haft þessi áhrif á þá, en eins getur það umhverfi sem þeir búa í verið orsökin, hvort sem þar er um að ræða næsta nágrenni eða heiminn allan. Að búa í landi þar sem vonleysið eitt ræður ríkjum og allt er að drabbast niður er vissulega ekki til þess fallið að auka á gleði íbúanna. Þetta mátti t.a.m. glöggt sjá í fyrrverandi kommúnistaríkjum Austur-Evrópu en er nú um stundir lagt á fólk í Norður-Kóreu. Frelsi fólks til að vinna að bættum hag sínum og sinna er nauðsynleg forsenda þess að því líði vel, en oft á tíðum hafa stjórnendur engan skilning á þessu eða kæra sig hreinlega kollótta um hag almennings.

En það sem getur líka valdið mönnum miklum áhyggjum er ef þeim finnst Jörðin öll eða stórir hlutar hennar liggja undir skemmdum. Þessa tilfinningu fá því miður margir með reglulegu millibili vegna þess að settar eru fram fullyrðingar um að henni stafi mikil ógn af þessu eða hinu. Þannig hafa síðustu ár verið settar fram fjölmargar fullyrðingar til dæmis um að súrt regn sé að drepa skóga, að mannfjöldinn sé að verða slíkur að almenn hungursneyð hljótist af, að ísöld sé að skella á eða að eyðimerkur séu að breiða úr sér. Þessar fullyrðingar hafa þó ekki staðist. Nýjasta fullyrðingin er að jörðin sé að hitna, en hún er lítt rökstudd og margt sem mælir gegn henni. Ástæða er því til að taka henni með jafn miklum fyrirvara og fyrri fullyrðingum af sama toga.

Þessar fullyrðingar hafa ekki skilað árangri frá sjónarmiði náttúruverndar. Þær hafa á hinn bóginn orðið til þess að rýra tiltrú manna á náttúruverndarsamtökum, enda eru svona „úlfur,úlfur” upphrópanir til þess fallnar. En þær hafa auk þess stundum skaðað samfélög frumbyggja og aukið á ótta og vanlíðan alls almennings, en það er vægast sagt hæpinn ávinningur. Hið undarlega er að þetta hefur gerst á þeim tíma sem allt virðist í raun horfa til betri vegar. Eitt dæmi er að hungursneyð er nú mun fátíðari en áður og nánast óþekkt nema sem afleiðing af stjórnlyndi ráðamanna viðkomandi landa. En raunveruleikinn virðist þannig lítil áhrif hafa á framsetningu slíkra fullyrðinga og þær því reknar áfram af einhverju öðru en sannleiksleit.

Að ræna fólk voninni annað hvort með því að neyða upp á það stjórnarfari sem heftir það í allskyns fjötra og hindrar það þannig í að leita hamingjunnar, eða með því að hella reglulega yfir það heimsendaspám sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum, er hvorki til þess fallið að bæta heiminn né líðan þeirra sem hann byggja. Að losna við þetta tvennt væri vissulega skref í átt til aukinnar hamingju.

Þeir sem þurfa að vinna jóladagana eru yfirleitt ekki allt of sælir með sinn hlut. Í framhaldi af umfjöllun hér að ofan um hamingjuleit finnst VÞ því rétt að hjálpa þeim sem þurfa að vinna við að líta á björtu hliðarnar. Þess vegna skal bent á að þessa daga, ólíkt flestum öðrum dögum, fá þeir, sem eru að vinna, full venjuleg laun útborguð. Þeir fá nefnilega u.þ.b. 80% álag og þar sem skatthlutfallið er um 40% fá þeir einföld laun útborguð. Þess vegna er um að gera að brosa líka í vinnunni um jólin.