Miðvikudagur 24. desember 1997

358. tbl. 1. árg.

Í dag hefst jólahátíð kristinna manna, hátíð ljóss og friðar eins og hún er kölluð. Boðskapur jólanna þykir stundum verða nokkuð útundan í baráttu fólks við að hafa umgjörð þeirra sem glæsilegasta, en það er þó hann sem hlýtur að gera það að verkum að einhvers virði er að halda jól. Fyrir flestum kristnum mönnum er boðskapur jólanna boðskapur Krists um náungakærleika. Þeir verða örlátari en venjulega og leiða hugann að því hvernig þeir geti bætt heiminn í kringum sig. Allt er þetta af hinu góða og til þess fallið að bæta mannlífið en víst er að ýmsum þykir ekki veita af.

En nú eru alls ekki allir kristnir. Margir hafa annan guð, sumir eru í vafa um trú sína og enn aðrir trúa ekki. Er nokkur ástæða fyrir þá til annars en halda sínu striki og láta eins og ekkert sé? Séu þeir alla jafna með hugann við það hvernig þeir geti verið öðrum líkt og þeir vilja að aðrir séu þeim, svo notaður sé boðskapur kristninnar, þá þurfa þeir svo sem ekki að staldra við. Flestir eru þó breyskari en svo og ætti því að vera óhætt að nota tækifærið um jólin og velta fyrir sér hvað mætti betur fara hjá þeim sjálfum og í heiminum öllum.

Vef-þjóðviljinn óskar lesendum sínum gleðilegra jóla.