Þriðjudagur 23. desember 1997

357. tbl. 1. árg.

Aðstæður hins eitt sinn frjálsa og óháða DV verða æ pínlegri. Nú gerir blaðið stórar fréttir um að mikil ókyrrð sé innan ríkisstjórnar og allskyns ónafngreindir menn séu óánægðir með hitt og þetta. Það er út af fyrir sig hugsanlegt að órói sé innan ríkisstjórnarinnar þótt þess hafi að vísu ekki sést merki, en komnar frá DV eru þessar stjórnmálaskýringar hins vegar hreinasta grín. Á meðan einn áhrifa- og metnaðarmesti þingmaður stjórnarandstöðunnar er ritstjóri þessa blaðs, er ómögulegt að taka nokkurt mark á „úttektum“ þess á íslenskum stjórnmálum.

Það vakti sérstaka athygli þeirra sem lásu baksíðufrétt DV um breytingar í ráðherraliði og meintan óróa í ríkisstjórn að fréttin var ómerkt. Eins og lesendur DV þekkja er almenna reglan þar á bæ að merkja fréttir blaðamönnum og velta menn því nú fyrir sér hverju það sæti að einmitt þessi frétt var ómerkt. Er skýringin ef til vill sú að Össur Skarphéðinsson fékk engan blaðamann til að leggja nafn sitt við hana og þótti óráðlegt áróðurslega að setja eigin stafi á hana? Er svo komið að ómerktar „fréttir“ á DV verða að skoðast sem skrif þingmanns stjórnarandstöðunnar en ekki fréttir alvöru fréttamiðils?

Ofvöxturinn í eftirlitsstarfsemi hins opinbera hefur valdið áhyggjum frjálslyndra manna hér á landi eins og víðar í hinum vestræna heimi. Hafa slíkar áhyggjur meðal annars verið orðaðar hér í Vef-Þjóðviljanum oftar en einu sinni. Það er mikið fagnaðarefni, að Davíð Oddsson forsætisráðherra hefur nú lagt fram að nýju frumvarp um eftirlitsstarfsemina, sem á að miða að því að hún fari ekki úr böndunum. Frumvarpið var áður lagt fram í tíð fyrri ríkisstjórnar Davíðs, en fékk ekki afgreiðslu á Alþingi. Er vonandi að þingmenn láti það ekki endurtaka sig heldur samþykki það á þessu þingi.

Frumvarpið felur að sjálfsögðu ekki í sér neina allsherjarlausn á málinu, en með því að samþykkja það sýndu alþingismenn með afgerandi hætti að þeir hafi skilning á því að eftirlitsstarfsemi getur verið afar íþyngjandi fyrir borgarana í landinu. Jafnframt væri með þeim hætti verið að leiða í lög ákveðna varnagla eða þröskulda varðandi útþenslu opinbers eftirlits og mikilvægasta atriðið í því sambandi er að áður en eftirlitsreglur eru samdar eða stofnað er til eftirlits þarf viðkomandi ráðuneyti að meta þörf fyrir eftirlitið og hvort gildi þess sé meira en kostnaðar þjóðfélagsins af því að framfylgja því. Í því sambandi á meðal annars að meta kostnað annarra aðila en hins opinbera af því að eftirlitið fer fram og skal þá horft m.a. til kostnaðar einstaklinga og fyrirtækja. Með því að skylda ráðuneyti með þessum hætti til að meta kostnað og óhagræði af eftirlitsstarfsemi er með mikilvægum hætti verið að takmarka þá stjórnlausu útþenslu sem átt hefur sér stað á þessu sviði. Það eitt að embættismenn verði skyldaðir til að kanna slíka þætti væri mikilvægur áfangi.

Hitt er svo annað mál, að spurningin um útþenslu eftirlitsstarfsemi hins opinbera er í grundvallaratriðum sama eðlis og spurningin um umsvif hins opinbera almennt. Ef þjóðfélaginu er stjórnað af stjórnmálamönnum og embættismönnum, sem eru gegnsýrðir af hugsunarhætti forsjárhyggju, mun eftirlitsstarfsemin þenjast út þrátt fyrir lagabálka, sem fela í sér ákveðna varúðarskyldu í þeim efnum.

Jólahugvekja Náttfara er komin á netið og er þar m.a. fjallað um einstaklingsfrelsi, hjálparstarf og heilbrigðismál.